„Hærri upphæð en flestir íbúar þessa lands munu eignast yfir alla sína lífstíð“

Jón Ásgeir Jóhannesson í Landsrétti vegna Aurum-málsins 2018.
Jón Ásgeir Jóhannesson í Landsrétti vegna Aurum-málsins 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Af tölvupóstssamskiptum milli starfsmanna í lánanefnd Glitnis, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er ljóst að Glitnir banki er fullmeðvitaður um að milljarðurinn sem Jón Ásgeir fengi úr Aurum-málinu myndi fara í að borga yfirdrátt hans. Jón Ásgeir fékk á árinu 2008 sífellt að hækka yfirdrátt sinn hjá bankanum, m.a. á þeim grundvelli að einn milljarður vegna Aurum myndi greiða hann.

Í málflutningi í Landsrétti tók Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari fram að vegna kaupa Glitnis á eigin hlutabréfum, eignarhlut Stím ehf. í bankanum, væri hlutur Jón Ásgeirs og félaga tengdra honum í bankanum nærri 54% og réði því í reynd yfir bankanum og meirihluta stjórnar hans. Þetta er meðal þess sem kemur fram ítarlegri yfirferð Morgunblaðsins um Aurum-málið í dag.

Lausafjárkrísa ársins 2008 er vel þekkt í dag en í eigin þjóðhagsspá Glitnis frá maí 2008 segir að lausafjárkrísa ársins myndi gera það að verkum að aðgengi að lánsfé yrði þrengra en áður. Af lestri tölvupóstssamskipta innan úr Glitni verður ekki annað séð en lausafjárkrísan hafi haft veruleg áhrif á Jón Ásgeir, sem hækkar ítrekað yfirdráttinn til að greiða ýmsa gjalddaga hjá sér eða tengdum félögum.

Jón Ásgeir byrjar snemma árið 2008 að sækjast eftir láni hjá bankanum. Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis og viðskiptastjóri Jóns Ásgeirs, sendir hinn 1. febrúar 2008 póst á starfsmenn lánanefndar um að „lán 101 Capital ehf. er með vaxtagjalddaga í dag ca. 220 mkr. á langtímaláni. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, eiganda 101 capital ehf., hefur óskað eftir því að hann fái yfirdrátt að fjárhæð allt að 220 mkr á reikning sinn nr. 680 í Skútuvogi til 2ja vikna og nota hann til að greiða vaxtagjalddagann. Óskað er eftir því að þetta verði samþykkt milli funda (í dag)“.

Erlendur Magnússon, framkvæmdastjóri hjá Glitni, sem átti sæti í efnahagsnefnd bankans á hluta ákærutímabilsins og vitni í Aurum-málinu, er meðal þeirra sem samþykkja yfirdráttinn að því gefnu að „JAJ er ráðandi hluthafi í Gaumi, þá þarf þetta að rýmast innan marka Baugs-samstæðunnar“. Bjarni bendir Erlendi á að hingað til hafi Jón Ásgeir ekki verið með í samstæðu Baugs og viðrar Erlendur þá efasemdir um lánveitinguna „[...] þegar einstaklingur biður um lán upp á 220m kr. (það er hærri upphæð en flestir íbúar þessa lands munu eignast yfir alla sína lífstíð), þá getum við vart haldið áfram að telja fjármál hans alls ótengd Gaumi og Baugi – eða hvar myndum við vilja draga mörkin, yfir milljarð? [...]“ Hann samþykkir engu að síður yfirdráttinn en minnir starfsmenn á að „við verðum að halda okkur við þær reglur sem okkur eru settar og leysa mál innan þeirra“.

 Hinn 10. febrúar 2008 sendir Jón Ásgeir póst á Bjarna með titlinum „getum við klárað PH-málið í dag need to get that out of way“. Bjarni svarar að hann muni hitta PH [Pálma Haraldsson] daginn eftir og málið verði tekið fyrir á miðvikudag en spyr Jón Ásgeir jafnframt: „Ætlardu ad nota tennan pen til ad greida 101 og mism i innlan? Kvedja BJ.“ Svarar Jón Ásgeir honum sama dag: „Ég legg nú ekki í vana minn að segja hvað ég ætla að gera við peninga mína. PH hefur rúllað þessu á undan sér í of langan tíma. Ég get sagt þér að 800 af þessum 1000 lenda hjá þér og 101 verður klárað. Klára á morgun. Kv. JÁJ

Sama dag sendir Bjarni póst á Lárus þar sem hann segir „JAJ“ og „PH“ vera „aggressífa“ og spyr Lárus hvort þeir séu ekki sammála um að þeir þurfi tryggingar ef þeir eiga að lána Fons meiri peninga.

Á fundi áhættunefndar Glitnis nr. 650, hinn 13. febrúar 2008, segir í fundargerð, að Fons eigi óuppgerð viðskipti við Jón Ásgeir að fjárhæð kr. einn milljarður. Fons óskar eftir láni til að gera þessi viðskipti upp og að Jón Ásgeir myndi lána 101 capital til að standa skil á vaxtagreiðslu sem gjaldféll í byrjun mánaðar. Skuldabréf milli Pálma og Jóns er þó ekki undirritað fyrr en mörgum mánuðum seinna. Í skýrslutöku kannast Pálmi ekkert við að skulda Jóni Ásgeiri „eitt eða neitt“ þegar hann er spurður um þetta.

Hinn 23. júní 2008 sendir Bjarni póst á Jón Ásgeir sem sýnir yfirlit yfir skuldir Gaums [félag m.a. í eigu Jón Ásgeirs] sem standa í 543 mkr. og að yfirdráttur hans hjá bankanum stendur í 242 mkr., sem samkvæmt fyrri póstum átti einungis að vera til tveggja vikna. Jón Ásgeir svarar: „Þetta er í lagi ef ég fæ 1 mio frá PH. Þá er ég góður fram á næsta ár.“

Sjö dögum seinna, 30. júní 2008, sendir Jón Ásgeir póst á Bjarna sem ber titilinn „2. júlí“ og segir: „Sæll. Verðum að ganga frá G málum á morgun ég verð að ganga frá þessum persónulegu málum þann 2. júlí og það má ekki klikka, annars fer ég í Jólaköttinn [...] Treysti á þig.“

Næsta dag, 1. júlí 2008 sendir Bjarni póst á Lárus og setur Magnús Arnar í cc þar sem segir: „J er á bakinu á mér en hann verður að greiða ca. 320 mkr á morgun. Þurfum að hækka yfirdrátt sem því nemur. Það er DD í gangi og áætlað að viðskiptin klárist í júlí/ágúst. Tímafaktorinn er ekki langur.“

Þegar kominn er 2. júlí 2008 sendir Bjarni póst á starfsmenn lánanefndar að nýju og segir: „Þar sem ekki sér fyrir enda á Gullsmiðnum [Aurum Holding] er óskað eftir heimild til að hækka yfirdrátt hjá Jóni Ásgeiri um 320 mkr. Hann stendur nú í 246 mkr., samtals 566 mkr. Yfirdráttinn á að gera upp með 1.000 mkr til JÁ sem á að koma út úr Gullsmiðnum. Það hafa safnast upp ýmsar skuldir hjá honum sem er orðið mjög aðkallandi að greiða. Óskað er eftir að þetta verði samþykkt.“

Hinn 11. júlí 2008 sendir Jón Ásgeir aftur póst á Bjarna sem heitir „must að klára í dag“ og segir: „Frétti að málið væri klárt hjá Einari viltu ganga frá þessum greiðslum í dag annars er ég í mjög djúpum skít. Þegar búið er að klára þetta uppsóp þá ætti ég að vera góður næstu 9 mánuði.“ Bjarni svarar Jóni Ásgeiri með: „Þegar peningar flæða þá fara þeir til Fons og þaðan til Þú Blásól.“ Jón Ásgeir svarar stuttu seinna að peningarnir eigi að ekki að fara inn í Þú Blásól heldur beint inn á ákveðinn reikning.

Einungis þremur dögum seinna, 14. júlí 2008, þarf að hækka yfirdrátt Jóns Ásgeirs aftur og sendir Bjarni póst á starfsmenn lánanefndar sem ber titilinn „Gullsmiðurinn“ og segir: „Sælir. Það er verið að ganga frá pappírsvinnu. JÁJ þarf að ganga frá greiðslum í dag. Óskað er eftir að yfirdráttarheimild hans verði hækkuð tímabundið í 720 mkr. (úr 566 kr.)“

Ólafur Þór Hauksson, saksóknari, ber málsgögn í Aurum-málinu inn í …
Ólafur Þór Hauksson, saksóknari, ber málsgögn í Aurum-málinu inn í dómsal. Kristinn Magnússon

 

Hér ber að nefna að í skýrslutöku Jóns Ásgeirs hjá sérstökum saksóknara 4. júlí 2011 neitar hann að svara fyrir tölvupóstssamskipti úr netfanginu jon.asgeir@baugurgroup.com sem er í þessum samskiptum. Spyr hann saksóknara hvort embættið hafi fengið tölvupóstana úr tölvunni sinni og segir sérstakur að þeir komi úr tölvu Lárusar Welding. „Ég get ekki sagt hvað fer fram í tölvunni hans Lárusar Welding,“ svarar Jón Ásgeir. Hélt Jón Ásgeir uppi sambærilegum vörnum í Baugsmálinu svokallaða. Í aðalmeðferð á málinu 2007 létu lögmenn Jóns Ásgeirs sérfræðinga sýna dómendum hversu auðvelt það væri að falsa tölvupóst. Hefur Jón Ásgeir hýst tölvupósta sína hjá æskuvini sínum, Guðmundi Inga Hjartarsyni hjá tölvuþjónustufyrirtækinu Netheimum, um árabil og hefur yfirvöldum gengið treglega að komast í þá þrátt fyrir leitarheimildir.

Jón Ásgeir og starfsmenn Glitnis virðast meðvitaðir á vordögum 2008 um að hlutur Jóns Ásgeirs úr Aurum-málinu muni greiða yfirdrátt hans hjá bankanum. Pálmi heldur hins vegar fram í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara að hann hafi lánað Jóni Ásgeiri milljarð gegn skuldabréfi í Þú Blásól ehf., enda segir það í samningi þeirra sem gerður er tveimur dögum eftir að lánið er undirritað. Það er einnig á vordögum 2008 sem verðmat á Aurum fer á flakk og hækkar matið á hlut Pálma í Aurum gríðarlega á örfáum mánuðum. 

Eftirfarandi athugasemd barst frá Jóni Ásgeiri í kjölfar fréttaflutnings Morgunblaðsins um Aurum-málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK