Fjögur átakaár hjá VÍS

Mikil átök hafa geisað meðal eigenda VÍS um völdin í …
Mikil átök hafa geisað meðal eigenda VÍS um völdin í stjórn félagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við Miðhraun í Garðabæ stendur líkamsræktarstöðin Crossfit XY. Fáa sem leggja leið sína þangað til þess að svitna grunar að eignarhaldið á stöðinni sé ein meginrótin að þeim átökum sem komu upp á yfirborðið á fimmtudagskvöldið síðasta þegar Helga Hlín Hákonardóttir, lögmaður og stjórnarformaður VÍS, sagði sig óvænt frá störfum í þágu tryggingafélagsins. Ásamt henni vék úr stjórninni Jón Sigurðsson en þau komu bæði inn í stjórn félagsins með stuðningi tveggja af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Gildis.

Helga Hlín var einn af stofnendum Crossfit XY ásamt hjónunum Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundi Erni Þórðarsyni. Heimildir Morgunblaðsins herma að slegið hafi í brýnu milli þeirra á sínum tíma og að ekki hafi gróið um heilt síðan.

Studdu andstæðing í stjórn

Það kom því ýmsum í opna skjöldu, í ljósi þess að átökin í crossfit-stöðinni voru á margra vörum, þegar Gildi lífeyrissjóður studdi Helgu Hlín inn í stjórn VÍS, skömmu eftir að Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn höfðu keypt umtalsverðan hlut í félaginu, og raunar farið fram á tvö stjórnarsæti af fimm á grundvelli hans. Viðmælendur Morgunblaðsins á þeim tíma töldu einsýnt að hjónin litu á það sem raunverulega ögrun að tefla Helgu Hlín fram í starfið, en hún hefur á síðustu árum unnið sem ráðgjafi við Gildi lífeyrissjóð, einkum þegar kemur að stjórnarháttum sjóðsins og þeirra fyrirtækja sem hann fjárfestir í. Átökin milli þessara aðila eru aðeins brot af umfangsmeiri valdatogstreitu innan VÍS. Tíðar mannabreytingar á vettvangi þess vitna þar um. Frá árinu 2015 hafa fimm stjórnarformenn setið við borðendann í Ármúla og frá 2016 hafa þrír forstjórar stýrt daglegum rekstri þess.

Skákuðu formanninum út

Hvað hörðust urðu átökin í félaginu þegar nýr meirihluti stjórnarinnar skákaði Herdísi Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands, úr stóli stjórnarformanns árið 2017 en hún hafði næstu tvö árin á undan gegnt því hlutverki. Sagði hún sig í kjölfarið frá stjórninni. Hún naut stuðnings Lífeyrissjóðs verslunarmanna til stjórnarsetunnar, líkt og Jón Sigurðsson. Því er ljóst að stærsti hluthafi félagsins hefur á tveimur árum horft á bak jafn mörgum stjórnarmönnum, sem ekki hafa treyst sér til samstarfs við Svanhildi Nönnu og þá sem myndað hafa meirihluta með henni í stjórninni. Tók Svanhildur Nanna við formennsku í stjórninni á þessum tímapunkti.

Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson sögðu sig úr stjórn …
Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson sögðu sig úr stjórn VÍS. Ljósmynd/Aðsend

Óvæntar vendingar

Átökin tóku nýja stefnu í upphafi síðasta sumars þegar héraðssaksóknari lét til skarar skríða og handtók Svanhildi Nönnu og eiginmann hennar í tengslum við rannsókn á viðskiptum þeirra á vettvangi Skeljungs, en þau eignuðust olíufélagið árið 2008.

Eftir þær aðgerðir var ljóst að Svanhildi Nönnu var ekki sætt í stóli stjórnarformanns. Varð þá úr að Helga Hlín tók við því hlutverki, en hún hafði verið varaformaður stjórnar frá því að Herdís Dröfn sagði sig úr stjórninni. Það varð niðurstaðan þrátt fyrir að Svanhildur Nanna hefði mjög ákveðið sótt að Valdimar Svavarsson yrði formaður.

Það var svo á stjórnarfundi á miðvikudag sem málin tóku enn nýja stefnu. Í lok þess dags kynnti VÍS sterkt uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Í lok stjórnarfundar sem haldinn var vegna uppgjörsbirtingarinnar tók Svanhildur Nanna til máls og lýsti því yfir að hún teldi rétt að hún tæki að nýju við stjórnarformennsku í félaginu. Kölluðu þá stjórnarmenn eftir upplýsingum um hvort staða hennar í fyrrnefndri rannsókn héraðssaksóknara hefði breyst. Í ljós kom að svo var ekki. Var fundi þá frestað til fimmtudags þar sem ákveðið var að taka áframhaldandi umræðu um tillögu Svanhildar Nönnu.

Á þeim fundi kom í ljós að Svanhildur Nanna hafði ekki óskoraðan stuðning til að taka við stöðu stjórnarformanns á ný. Herma heimildir Morgunblaðsins að hún hafi þá gert tillögu um aðra verkaskiptingu stjórnar. Með því var myndaður nýr meirihluti í stjórninni með fyrrgreindum afleiðingum þar sem Valdimar Svavarsson var kjörinn formaður og Gestur Breiðfjörð Gestsson varaformaður.

Veruleg óánægja með atburðarás síðustu daga

Stórir hluthafar sem Morgunblaðið hefur rætt við meta nú stöðu sína í hluthafahópnum upp á nýtt í ljósi þess að enn gjósa upp átök í forystusveit fyrirtækisins. Í þeim samtölum hefur m.a. verið rifjað upp að í maí í fyrra ákvað Gildi, sem var í hópi stærstu hluthafa fyrirtækisins, að selja sig verulega niður, vegna megnrar óánægju með stjórnarhætti á vettvangi fyrirtækisins. Það staðfesti framkvæmdastjóri sjóðsins á sínum tíma í samtali við ViðskiptaMoggann.

Meðal þess sem stórir hluthafar munu nú vera að skoða, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, er að kallaður verði saman hluthafafundur í því skyni að afturkalla umboð eins eða fleiri stjórnarmanna í félaginu. Til þess þurfa hluthafar með að minnsta kosti 10% hlutafjár að baki sér að óska eftir fundinum. Þar sem stjórnin var sjálfkjörin á sínum tíma þarf einfaldan meirihluta á slíkum fundi til að afturkalla umboð stjórnarinnar. Hlutabréf VÍS lækkuðu um 2,4% í viðskiptum í Kauphöll Íslands í gær. Umfang viðskiptanna var tæpar 46 milljónir króna. Stærsti hluthafi félagsins er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 8,64% hlut.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK