Hagnaður Eimskips lækkar um 28,7%

Hagnaður Eimskips hefur dregist nokkuð saman á þessu ári.
Hagnaður Eimskips hefur dregist nokkuð saman á þessu ári. mbl.is/Árni Sæberg

Eimskip hagnaðist um 6,3 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 8,8 milljóna evra hagnað á sama tíma í fyrra. Er það samdráttur upp á 28,7%. Tekjur félagsins jukust um 4,8% og voru 182,2 milljónir evra, en rekstrargjöld hækkuðu á sama tíma um 6,4%. Rekstrarhagnaður félagsins, það er hagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði nam 17,6 milljónum evra og lækkaði um 8,6% milli ára. Eiginfjárhlutfall félagsins er 49,7%.

Samkvæmt afkomuspá félagsins er gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður ársins muni nema 49 til 53 milljónum evra, en á fyrstu níu mánuðum ársins hefur rekstrarhagnaður verið 40 milljónir evra. Á sama tíma í fyrra var rekstrarafkoman 45,3 milljónir evra.

Gylfi Sigfússon, forstjóri félagsins, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar að ástæða lakari afkomu sé þríþætt. „Þriðji ársfjórðungur 2018 var sá stærsti hjá félaginu hvað tekjur snertir frá árinu 2009 en hins vegar er afkoma fjórðungsins undir okkar væntingum. Helstu ástæður fyrir lakari EBITDA-afkomu á þriðja ársfjórðungi eru raktar til 1,7 milljóna evra lækkun[ar] í starfsemi okkar í Noregi þar sem flutningsmagn dróst saman  ásamt því að félagið varð fyrir rekstraráföllum þegar frystiskip biluðu sem hafði neikvæð áhrif á afkomuna. Þá var afkoma af flutningsmiðlun 1,4 milljónum evra lægri samanborið við fyrra ár.“

Gylfi segir félagið gera ráð fyrir jákvæðum áhrifum á reksturinn úr fjölda verkefna sem ráðist hafi verið í. „Við höfum skilað leiguskipi í Noregi og við erum með áform um endurskipulagningu á rekstrinum til þess að mæta breytingum á norska markaðnum. Við vinnum áfram í að aðlaga gámasiglingakerfið, með bættum hafnarsamningum. Þá er unnið að lækkun á gáma- og leigukostnaði skipa. Verið er að vinna markvisst að [því að] ná fram lækkun á launakostnaði með aukinni sjálfvirkni og tilhögun bakvinnslu,“ segir hann meðal annars í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir að nýsmíði tveggja 2.150 gámaeininga skipa, sem nú eru í smíði fyrir félagið í Kína, klárist á næsta ári og verði afhent á öðrum árshelmingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK