„Þetta hefur verið dýrkeypt lexía“

Skúli Mogensen, eigandi WOW air.
Skúli Mogensen, eigandi WOW air. mbl.is/RAX

Skúli Mogensen, stofnandi og eigandi flugfélagsins WOW air, segist harma þær aðgerðir sem ráðist var í í dag, en 111 fastráðnum starfsmönnum félagsins var sagt upp og tilkynnt var um fækkun flugvéla í flotanum. Í samtali við mbl.is segir hann að um eina stóra aðgerð hafi verið að ræða og að nú verði horft til framtíðar. Skúli segir að félagið hafi síðustu tvö ár farið af leið lágfargjaldaflugfélags, en að félagið muni aftur fara á fyrri braut.

„Erfið ákvörðun og sorgleg

„Þetta er mjög erfið ákvörðun og sorgleg, en því miður nauðsynleg til að tryggja framtíð félagsins og að tryggja áframhaldandi störf þeirra tæplega þúsund starfsmanna sem eru áfram. Þetta er grunnur að því að hafa arðbært félag til framtíðar,“ segir Skúli við mbl.is. Uppsagnirnar í dag snerta allar deildir félagsins að hans sögn, bæði þá sem starfi á skrifstofu og í fluginu sjálfu.

Breytingarnar eru umfangsmeiri en að ná bara til fastráðinna starfsmanna og hefur þannig áhrif á verktaka og sumarstarfsfólk sem Skúli segir að fái ekki endurnýjun á samningi. Heildarfjöldinn sé því um 350 manns.

„Við fórum af leið á síðustu tveimur árum“

Fjárfestingafélagið Indigo partners og WOW air náðu samkomulagi í síðasta mánuði um fjármögnun með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. „Það hefur legið fyrir að við höfum verið að undirbúa og gera breytingar. Er nauðsynlegt til að koma rekstrinum í betra horf,“ segir Skúli og bætir við að aðkoma Indigo partners hafi skerpt á þeirri vinnu og unnið sé náið með félaginu. WOW air vinni nú náið með Indigo að því að aðlaga leiðarkerfið þeirri framtíðarstefnu sem horft sé til. „Þetta byggist fyrst og fremst á því að komast í upprunalega búninginn, að vera alvörulágfargjaldaflugfélag,“ segir hann.

Skúli segir WOW air hafa þróast af leið undanfarið og nú eigi að vinda ofan af því. „Við fórum af leið á síðustu tveimur árum,“ segir hann. Lykilatriði lágfargjaldaflugfélaga sé að vera með einsleitan og einfaldan rekstur og eins sæti í flugvélum. Með því náist hagkvæmnin.

Flækjustigið var orðið óþarflega mikið

„Flækjustigið hjá okkur var orðið óþarflega mikið. Við sjáum það í dag,“ segir hann. Bendir Skúli á að afkoman hafi verið mjög góð árin 2015 og 2016, en síðan hafi hallað undan fæti. „Við viljum fara aftur í þann búning og munum halda okkur við þá stefnu,“ segir hann og bætir við að það rími vel við stefnu Indigo í þeirra fjárfestingum.

A330-breiðþoturnar munu heyra sögunni til hjá WOW air.
A330-breiðþoturnar munu heyra sögunni til hjá WOW air. mbl.is/Árni Sæberg

WOW air mun losa sig við Airbus A330-breiðþotuna sem er á skrá hjá þeim og um leið hætta að fljúga á fjarlægari staði í lok janúar. Á það við um Los Angeles og Nýju-Delí. Segir hann gefa augaleið að félagið muni hætta við þessa fjarlægju staði þegar það sé ekki með breiðþotur. Þá verði leiðarkerfið í stöðugri vinnslu og þróun og verði það áfram.

Ein stór aðgerð núna

Spurður hvort búast megi við fleiri stórtíðindum sem þessum frá félaginu á næstunni segir Skúli að hann horfi á þetta sem eina stóra aðgerð núna og að hann horfi núna til framtíðar. „Fórum í þessar aðgerðir til að tryggja reksturinn til framtíðar,“ segir hann.

Fram undan er heilmikil vinna og segir Skúli að viðræður við Indigo standi enn yfir. Þar hafi verið sett fram nokkur skilyrði fyrir fjárfestingu, meðal annars að vinna að leiðarkerfi og stefnu fyrir félagið í sameiningu og aðgerðirnar núna séu hluti af því. Þá þurfi félagið að ná samningum um að fækka í flotanum eða selja flugvélar og segir hann þeirri vinnu miða vel áfram. Að lokum þurfi að semja við skuldabréfaeigendur og sú vinna sé í gangi.

„Dýrkeypt lexía“

„Þetta hefur verið dýrkeypt lexía,“ segir Skúli um síðustu ár og segir að félagið hafi verið farið að haga sér eins og gömlu flugfélögin, „allt fyrir alla“. Með aðgerðunum í dag segir hann að félagið muni geta staðið sig mun betur að vera alvörulágfargjaldaflugfélag og segist hann vænta þess að félagið muni fara að vaxa aftur á skynsamlegri nótum á komandi misserum.

„Ég vil þakka okkar frábæra fólki fyrir vel unnin störf. Ég tek þetta mjög nærri mér, en því miður er þetta nauðsynlegt skref til að tryggja framhald félagsins,“ segir Skúli að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK