Órói á hlutabréfamörkuðum

S&P vísitalan lækkaði um 1,7% og Dow Jones um 2,2% …
S&P vísitalan lækkaði um 1,7% og Dow Jones um 2,2% í dag. AFP

Eftir gríðarlega mikla hækkun á verðbréfamörkuðum í gær lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur heims í dag á ný. S&P vísitalan lækkaði um 1,7% og Dow Jones um 2,2%.

Verðbréfamarkaðir hafa einkennst af miklum verðlækkunum það sem af er desembermánuði en annar í jólum var hins vegar ansi líflegur á hlutabréfamörkuðum þar sem S&P vísitalan hækkaði um 5% sem er mesta hækkun síðan árið 2009.

Samkvæmt frétt AP hafa fjárfestar undanfarið óttast kólnandi efnahag en bjartsýni jókst á ný í gær þegar fram kom að jólasala í Bandaríkjunum hefði farið fram úr væntingum samkvæmt tölum frá Mastercard.

Auk þess jókst bjartsýni fjárfesta enn frekar þegar fréttir bárust frá nafnlausum heimildamanni að ekkert yrði af því að Donald Trump myndi skipta út seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Jerome Powell, sem forsetinn hefur gagnrýnt fyrir of mikið taumhald í sinni peningastefnu.

Tónninn breyttist þó í dag eftir að fréttir bárust af því að Trump hygðist íhuga það að banna bandarískum fyrirtækjum að nota samskiptabúnað frá kínversu tæknifyrirtækjunum Huawei og ZTE. Þar að auki birtist ný könnum sem sýnir fram á verri afstöðu bandarískra neytenda til efnahagslífsins en greinendur gerðu ráð fyrir að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Á Wall Street lækkuðu fyrirtækin í orkugeiranum mest í dag, eða um 2%. Iðnaðar- og upplýsingatæknifyrirtæki lækkuðu um 1,9%. Þá lækkaði Nasdaq vísitalan um 2,2% þar sem tæknifyrirtæki eru áberandi en markaðurinn er nú þegar orðinn bjarnarmarkaður (markaður sem hefur orðið fyrir 20 prósent eða meiri lækkun frá nýlegu hágildi).

Lækkunin á Wall Street kom í kjölfarið á seljendamarkaði í Evrópu í dag þar sem Stoxx 600 vísitalan lækkaði um 2,2% og stendur í sínu lægsta gildi síðan í nóvember 2016. Breska FTSE 100 vísitalan lækkaði 2% og hefur ekki verið lægri síðan í júlí 2016.

Í Japan hækkaði Topix vísitalan um 4,9% á meðan að Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 0,7% og CSI 300 vísitalan í Kína lækkaði um 0,4%.

„Óvissan er enn mjög mikil. Það er erfitt að meta það hvort markaðurinn sé í lægstu lægðum þegar hann er þetta óstöðugur," segir Max Gokhman, sem er yfir eignastýringu hjá fjárfestasjóðnum Pacific Life Fund Advisors við Financial Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK