Lendingarleyfi WOW á Gatwick um 800 milljóna virði

Wizz Air bætir við sig flugferðum frá Gatwick frá og …
Wizz Air bætir við sig flugferðum frá Gatwick frá og með 31. mars. AFP

Tvö lendingarleyfi á Gatwick-flugvelli í Englandi, sem flugfélagið WOW air tilkynnti 20. desember sl. að það hefði selt, og sagði í sömu tilkynningu frá flutningi á þjónustu sinni frá Gatwick til Stansted-flugvallar frá og með 31. mars 2019, gætu verið um 800 milljóna króna virði samtals ef miðað væri við upplýsingar úr vefútgáfu breska blaðsins Evening Standard frá því í nóvember í fyrra.

Í grein blaðsins er fjallað um sölu á 22 lendingarleyfum úr þrotabúi breska flugfélagsins Monarch sem varð gjaldþrota haustið 2017 og talað um að fyrir leyfin gætu fengist um 60 milljónir punda eða tæpir níu milljarðar íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. 

Wizz keypti 30. nóvember

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu alþjóðlegs fyrirtækis sem sér um afgreiðslutíma fyrir fjölda flugvalla, þar á meðal Gatwick-flugvöll, Airport Coordination Limited Ltd. (ACL), keyptu ungverska ofurlággjaldaflugfélagið Wizzair og breska lággjaldaflugfélagið Easy Jet fyrrnefnd lendingarleyfi af WOW air. Salan til Easy Jet fór fram samkvæmt upplýsingum frá ACL 5. desember sl. en salan til Wizz air 30. nóvember.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu er stærsti eigandi Wizzair, með 15,85% hlut, fjárfestingarfélagið Indigo Partners sem samþykkt hefur, með skilyrðum, að fjárfesta fyrir 9,3 milljarða króna í WOW air. Því vekur tímasetning viðskiptanna með leyfin sérstaka athygli, en daginn áður, eða 29. nóvember, var fyrst tilkynnt um mögulega fjárfestingu Indigo í WOW air, í kjölfar þess að viðræðum WOW air og Icelandair var slitið, en Icelandair hafði áður tilkynnt kaup á WOW air, að uppfylltum nokkrum skilyrðum.

Í ljósi ofangreinds má því álykta sem svo að viðskiptin með lendingarleyfin á Gatwick séu hluti af yfirstandandi samningaviðræðum milli Indigo og WOW air.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er fjárfesting Indigo í WOW air háð ýmsum skilmálum, eins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar sem ekki er lokið en engin tímasetning er komin á það hvenær vinnu við hana muni ljúka.

Greint hefur verið frá því að WOW air muni skera niður flota sinn á næsta ári úr 20 þotum í 11 og stöðugildum hefur verið fækkað um 350. Eftir uppsagnirnar munu rúmlega þúsund starfa hjá félaginu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK