Mikill meirihluti lántaka leitar nú í föst vaxtakjör

Fólk virðist nú í auknum mæli vilja festa vaxtakjör til …
Fólk virðist nú í auknum mæli vilja festa vaxtakjör til lengri tíma. mbl.is/Eggert

Langflestir þeirra sem slógu lán hjá íslensku viðskiptabönkunum í nóvember, með veði í húsnæði sínu, tóku lán sem bera fasta vexti til nokkurra ára. Þetta sýna nýjar tölur frá Seðlabanka Íslands.

Á fimmtudag var greint frá því í ViðskiptaMogganum að íslensk heimili tækju nú nær eingöngu óverðtryggð lán til að fjármagna húsnæði sitt.

Þannig hefðu bankarnir veitt óverðtryggð íbúðalán að fjárhæð 14,3 milljarða króna, að teknu tilliti til uppgreiðslna og afborgana en á hinn bóginn hefðu heimilin í landinu greitt upp verðtryggð lán sín, umfram nýjar lántökur af því tagi, sem nam 970 milljónum króna.

Í fyrrnefndum tölum kemur fram að af þeim 14,3 milljörðum sem heimilin tóku að láni í formi óverðtryggðra lána í nóvember hafi um 11% fjárhæðarinnar verið í formi lána með breytilega vexti eða tæplega 1,6 milljarðar. Hins vegar hafi 12,7 milljarðar borið fasta vexti. Miðað við lánatöflur bankanna má gera ráð fyrir að þeir vextir séu festir til þriggja eða fimm ára.

Sé litið nokkra mánuði aftur í tímann sést að í þessum efnum hefur orðið mikill viðsnúningur. Í október var hlutfall nýrra lánveitinga með breytilegum vöxtum 23% og hafði farið úr 43% í september. Á fyrstu átta mánuðum ársins, frá janúar og út ágúst, var hlutfall þeirra óverðtryggðu lána sem slegin voru og báru breytilega vexti, hins vegar 52%. Svipaða sögu má segja af verðtryggðum útlánum bankanna til húsnæðiskaupa.

Verðtryggð lán með föstum vöxtum jukust um 165 milljónir í nóvember en uppgreiðslur umfram nýjar lántökur í þeim lánaflokki sem ber breytilega verðtryggða vexti, námu 1,1 milljarði króna.

Á fyrstu 8 mánuðum ársins voru 74% þeirrar fjárhæðar sem bankarnir lánuðu verðtryggð með breytilegum vöxtum. Því hefur algjör viðsnúningur orðið í þessum lánaflokkum, rétt eins og hinum óverðtryggðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK