Hagar lækka afkomuspána

Afkomuspá Haga á yfirstandandi rekstrarári hefur verið lækkuð úr 5.000 …
Afkomuspá Haga á yfirstandandi rekstrarári hefur verið lækkuð úr 5.000 milljónum að undanskildum kostnaði við samruna Haga og Olís niður í 4.600 til 4.700 milljónir að undanskildum kostnaði vegna samrunans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagar hafa lækkað afkomuspá sína úr fimm milljarða króna EBIDTA niður í 4.600 til 4.700 milljónir að undanskildum kostnaði við samruna og einskiptiskostnað vegna samruna Haga og Olís. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi til Kauphallarinnar fyrr í dag.

„Gengisfall íslensku krónunnar hefur haft áhrif á framlegð félagsins. Hækkun á kostnaðarverði í innkaupum hefur ekki komið fram í útsöluverði til viðskiptavina félagsins. Framlegð á þriðja ársfjórðungi er 1,0%-stigi lægri en á fyrra ári og framlegð fyrstu 9 mánuði ársins er 0,7%-stigi lægri en árið á undan. Vörusala félagsins hefur verið góð, en söluaukning á þriðja ársfjórðungi á milli ára var 9,5%, en er 4,0% á fyrstu níu mánuðum ársins,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að lokun og sala þriggja verslana á síðasta ársfjórðungi rekstrarársins og seinkun á opnun nýrrar Bónusverslunar í Skeifunni hafi haft áhrif á áætlanir um afkomu félagsins. „Auk þess var gert ráð fyrir jákvæðum rekstraráhrifum vegna flutnings á verslun Bónuss í Mosfellsbæ sem hefur frestast um tæpt ár, en sú verslun mun væntanlega opna um mitt næsta rekstrarár.  Tekið hefur verið tillit til þessara breytinga í uppfærðri afkomuspá,“ segir í tilkynningunni.

Þann 29. nóvember 2018 heimilaði Samkeppniseftirlitið samruna Haga og Olíuverzlunar Íslands og DGV eftir að öllum fyrirvörum sem voru í kaupsamningi hafði verið aflétt. Samruninn kom til framkvæmda 30. nóvember.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir fyrstu 11 mánuði 2018 er EBITDA-afkoma Olís og DGV um 2.270 millj. króna. Eigið fé Olís og DGV 30. nóvember sl. var 7.272 milljónir kr. og nettó vaxtaberandi skuldir 4.686 milljónir kr. Olís og DGV munu verða hluti af rekstri samstæðu Haga á fjórða ársfjórðungi og áætlanir gera ráð fyrir að EBITDA-félaganna fyrir tímabilið verði um 230 milljónir króna. Skv. bráðabirgðauppgjöri samstæðu Haga, sameinaðs félags, 30. nóvember er eiginfjárhlutfall 45% og nettó vaxtaberandi skuldir 13.119 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK