Ekkert gefið upp um Bílanaust

Arion banki segist ekki geta upplýst um stöðu Bílanausts. Nokkur …
Arion banki segist ekki geta upplýst um stöðu Bílanausts. Nokkur gjaldþrot stórra viðskiptavina bankans hafa átt sér stað undanfarið. mbl.is/Eggert

Ekki fæst upplýst hvað felst í því að Arion banki gangi að veðum sínum í Bílanausti og segir upplýsingafulltrúi bankans, Haraldur Guðni Eiðsson, í samtali við mbl.is að Arion banki tjái sig ekki um mál viðskiptavina sinna.

Bankinn hefur að sögn stjórnarformanns Bílanausts, Eggerts Árna Gíslasonar, gengið að öllum veðum sínum.

Enn er óljóst í hverju veð Arion felast, hvort um ræðir húsnæði, birgðir, hlutafé eða fyrirtækið í heild. Þá er einnig óljóst hvort Arion taki fyrirtækið yfir eða fyrirtækið verði tekið til formlegra gjaldþrotaskipta.

Tilraunir mbl.is til þess að upplýsa þessar hliðar málsins hafa ekki borið árangur, en stjórnarformaður Bílanausts vísar á bankann og Arion vísar á eigendur Bílanausts.

Starfsmenn segja að þeim hafi verið tilkynnt um starfslok sín í morgun vegna gjaldþrots fyrirtækisins.

Nokkur gjaldþrot viðskiptavina Arion

Nokkuð hefur verið um gjaldþrot fyrirtækja sem hafa verið með Arion sem aðalviðskiptabanka sinn. Þá má nefna Primera Air sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar, félagið lagði fram beiðni um gjaldþrotaskipti 2. október.

Andri Már og Arion banki voru ekki sammála um hvort legið hafi fyrir loforð eða vilyrði fyrir frekari fjármögnun flugfélagsins.

United Silicon, rekstraraðili kísilverksmiðjunar í Helguvík, fór í þrot 22. janúar í fyrra. Fyrirtækið var í miklum viðskiptum við Arion banka, en með samkomulagi við skiptastjóra þrotabús United Silicon gekk Arion að veðum sínum og tók yfir allar helstu eignir félagsins.

Nýtt félag, Stakksberg, var stofnað utan um rekstur Kísilverksmiðjunnar og því falið að hefja starfsemi þess á ný. Áætlað hefur verið að heildarkostnaður vegna úrbóta sem þurfa að eiga stað til þess að rekstur hefjist sé um 4,5 milljarðar króna.

Ekkert fékkst upp í launakröfur sextíu starfsmanna við gjaldþrot United Silicon.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK