Breytingar á tíu stöðugildum

Tekin hefur verið ákvörðun um að gera breytingar á stjórnskipulagi Eimskipafélags Íslands í kjölfar ýmissa breytinga í rekstrarumhverfi félagsins sem átt hafa sér stað á undanförnum misserum og kallað hafa á aukna hagræðingu og skilvirkni í rekstri.

Fram kemur í fréttatilkynningu að helstu breytingarnar séu þær að Hilmar Pétur Valgarðsson, fjármálstjóri Eimskips, muni taka við nýju sviði, rekstrarsviði, sem sameini helstu rekstrareiningar félagsins tengdar skiparekstri og siglingakerfi. Egill Örn Petersen, forstöðumaður á fjárhagssviði, muni taka við starfi fjármálastjóra og leiða fjármálasvið félagsins. Ný deild, ferla- og upplýsingatæknideild, sem áður hafi verið tvær aðskildar deildir í skipuriti muni heyra beint undir forstjóra.

„Samhliða þessum skipulagsbreytingum verður hagrætt í siglingakerfi félagsins. Strandsiglingar verða nú aðra hverja viku í stað vikulega frá Íslandi, eins og áður hefur verið tilkynnt, auk þess sem fækkað hefur verið um eitt skip í siglingakerfi félagsins í Noregi. Aukið verður við þjónustu við ferskfisk- og uppsjávarviðskiptavini í Færeyjum með vikulegum siglingum frysti- og gámaskipsins Svartfoss milli Færeyja og Bretlands auk þess sem aðra hverja viku verða siglingar milli Færeyja og Hollands.“

Þessar aðgerðir feli í sér breytingar á tíu stöðugildum hjá Eimskip sem verða ýmist lögð niður eða taka breytingum. Flest þeirra varði millistjórnendur hjá félaginu. Laun nýs forstjóra taka mið af þeirri áherslu stjórnar félagsins að draga þurfi úr kostnaði þess.

Haft er eftir Baldvini Þorsteinssyni, stjórnarformanni Eimskips, að tilgangurinn með breytingunum sé „að hagræða í rekstri félagsins og geta betur mætt kröfum viðskiptavina okkar um hagkvæma og framúrskarandi þjónustu. Áhersla stjórnar og stjórnenda er að draga úr rekstrarkostnaði eins og kostur er og er þessum breytingum ætlað að styðja við þau markmið þar sem stjórnskipulag er einfaldað. Með nýju rekstrarsviði næst betri yfirsýn yfir mikilvægustu kostnaðarþætti félagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK