Telur launin hófleg og ekki leiðandi

mbl.is/Hjörtur

Bankaráð Landsbankans segir laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra bankans, vera að mati þess í samræmi við eigendastefnu ríkisins þar sem fram kemur að starfskjarastefna bankans skuli vera samheppnishæf en hófleg og ekki leiðandi.

Þetta kemur fram í svari bankaráðs Landsbankans til bankasýslu ríksins en bankasýslan óskaði fyrir helgi eftir upplýsingum frá ráðinu um launamál bankans. Þar segir enn fremur að hækkun á launum bankastjórans frá árinu 2017 sé til komin vegna þess að á árunum 2009-2017 hafi kjör bankastjóra heyrt undir kjararáð sem hafi orðið til þess að laun hans hafi dregist langt aftur úr þeim launum sem greidd hafi verið fyrir sambærileg störf.

Bankaráðið segist hafa ítrekað gert athugasemdir við það fyrirkomulag að kjararáð tæki ákvarðanir um kjör bankastjórans og úrskurði ráðsins. Launakjörin hafi ekki verið samkeppnishæf og því ekki í samræmi við starfskjarastefnu bankans að mati bankaráðsins. Við skilgreiningu á hugtakinu hófsemi lítur bankaráðið til eldri eigandastefnu ríkisins frá 2009 þar sem segir að „laun stjórnenda eigi að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á, en séu ekki leiðandi“.

Við mat á nýjum launum bankastjórans hafi bankaráðið meðal annars aflað gagna frá óháðum ráðgjafarfyrirtækjum um laun stjórnenda annarra fjármálafyrirtækja og forstjóra stórra fyrirtækja á Íslandi og óskað álits á hver samkeppnishæf laun væru. Niðurstöður þeirra hafi meðal annars verið þær að eðlilegt væri að launin væru á bilinu 3,5-4,9 milljónir króna á mánuði. Í kjölfarið hafi verið samið um að laun bankastjóra yrðu 3,25 milljónir króna frá og með 1. júlí 2017.

„Í ráðningarsamningnum kemur fram að það sé stefna bankaráðs að greiða bankastjóra samkeppnishæf laun. Launin voru síðan endurskoðuð í samræmi við ákvæði samningsins og starfskjarastefnunnar frá og með 1. apríl 2018. Heildarlaun bankastjóra nema nú 3,8 milljónum króna á mánuði. Eftir hækkunina eru laun bankastjóra Landsbankans umtalsvert lægri en laun bankastjóra hinna stóru bankanna tveggja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK