Leggja til tveggja milljarða arðgreiðslu

VÍS hagnaðist um 2.061 milljón króna á árinu 2018.
VÍS hagnaðist um 2.061 milljón króna á árinu 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggingafélagið VÍS hagnaðist um 2.061 milljón króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um  55,4% frá fyrra ári þegar hann nam 1.326 milljónum. Tekjur félagsins af fjárfestingastarfsemi námu 2.827 milljónum en voru 1.350 milljónir árið áður. Segir Helgi Bjarnason, forstjóri félagsins, í tilkynningu sem fylgdi uppgjöri þess að fjárfestingastarfsemin hefði gengið vel, þrátt  fyrir krefjandi rekstrarumhverfi.

„Fjárfestingstarfsemin gekk vel í erfiðu árferði. Breytingar sem farið var í á eignasafni félagsins á árinu skiluðu mjög góðum árangri. Þrátt fyrir sveiflur á markaði og slakt ár á hlutabréfamörkuðum var ávöxtun fjáreigna 8,3% sem var umfram spá okkar fyrir árið.“

Helgi Bjarnason er forstjóri VÍS.
Helgi Bjarnason er forstjóri VÍS. mbl.is/RAX

Iðgjöld ársins námu 22,7 milljörðum króna og jukust um 10,6% frá árinu 2017 þegar þau námu 20,5 milljörðum króna. Samsett hlutfall var talsvert lakara á árinu 2018 en 2017. Reyndist það 98,7% samanborið við 95,3% ári fyrr.

Rekstrarkostnaður VÍS á árinu 2018 nam tæpum 5,5 milljörðum króna og jókst um 10,3% frá árinu 2017 þegar hann nam ríflega 4,9 milljörðum króna. Tjón tímabilsins jukust um 24,4% og reyndust 17,4 milljarðar króna en voru ári fyrr tæpir 14 milljarðar. Þar af voru eigin tjón 16,8 milljarðar en höfðu verið 14,6 milljarðar árið 2017.

Eiginfjárhlutfallið 31,6%

Eignir VÍS námu tæpum 47,2 milljörðum við nýliðin áramót og höfðu þær aukist um 1.200 milljónir króna frá fyrra ári. Skuldir félagsins námu 47,2 milljörðum en höfðu numið 46,4 milljörðum við árslok 2017. Þar vegur vátryggingaskuld félagsins þyngst. Nam hún um áramót 26,3 milljörðum en hafði verið 24,4 milljarðar í árslok 2017.

Eigið fé félagsins lækkaði milli ára og nam 14,9 milljörðum króna en hafði verið 16,8 milljarðar 12 mánuðum fyrr. Eiginfjárhlutfallið fór um leið úr 36,1% í 31,6%.

Hagnaðurinn verði greiddur út

Í tilkynningu sem stjórn félagsins hefur sent frá sér í tengslum við fyrirhugaðan aðalfund félagsins, sem haldinn verður 20. mars næstkomandi, er lögð fram tillaga um arðgreiðslu sem nemur 2.044 milljónum króna eða sem nemur u.þ.b. öllum hagnaði síðasta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK