Opna Bónusverslun í húsakynnum Víðis

Sjálfsafgreiðslukössum fjölgar áfram í Bónus og Hagkaupum.
Sjálfsafgreiðslukössum fjölgar áfram í Bónus og Hagkaupum. Kristinn Ingvarsson

Ný Bónusverslun verður opnuð á Garðatorgi á allra næstu vikum, á þeim stað þar sem Víðir var áður. Hagar hafa þá fest kaup á Reykjavíkurapóteki. Fyrirtækið ætlar þá áfram að draga verulega úr sölu á fatnaði, eins og í Hagkaupsverslunum, þar sem fatadeildir verða margar lagðar niður á næstunni.

Þetta er meðal þess sem kom fram á kynningu Haga sem haldin var fyrir hluthafa og markaðsaðila þeirra á skrifstofum þeirra í Smáralind í gærmorgun. Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir í samtali við mbl.is tímana vera krefjandi en aðgerðirnar sem boðaðar eru muni stuðla að samkeppnishæfni fyrirtækja Haga.

Samruni Olís við Haga var samþykktur af Samkeppniseftirlitinu í september. Áætluð samlegðaráhrif af samrunanum eru 600 milljónir á ári og er talið að 18 mánuði taki að ná þeim takti. Finnur kveðst vongóður um að þær áætlanir standist. Skrifstofur félaganna verða sameinaðar í haust og rennur leigusamningur Olís í Katrínartúni út í ágúst. Eftir það flytja um 60 starfsmenn Olís þaðan til Haga í Skútuvogi.

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is/Árni Sæberg

Samkeppniseftirlitið ógilti samruna Haga við Lyfju árið 2017. Hagar hafa sýnt áhuga á apóteksrekstri um hríð og hafa nú fest kaup á Reykjavíkurapóteki, sem rekur verslun að Seljavegi 2 í Reykjavík.

Staða Útilífs, sem er í eigu Haga, var einnig rædd á fundinum. Reksturinn var sagður góður, en Finnur segir fyrirtækið þó tilbúið að skoða sölu á versluninni, ef rétt tilboð berst. „Fleiri en einn og fleiri en tveir“ hafi sýnt því áhuga.

Sjálfsafgreiðslukassar helmingur viðskipta

Ánægja er þá sögð meðal viðskiptavina með sjálfsafgreiðslukassa á þeim stöðum þar sem boðið er upp á slíkt. Sjálfsafgreiðsla í búðum þýðir mjög ánægðir kúnnar, segir Finnur. Slík þjónusta er nú í boði í níu verslunum Haga, sjö Bónusverslunum og tveimur Hagkaupsverslunum. Segir Finnur þetta auka afköst verslananna, sem aftur geri þeim kleift að bjóða áfram lægsta vöruverðið.

Um 60 starfsmenn Olís ehf. flytja á skrifstofu Haga í …
Um 60 starfsmenn Olís ehf. flytja á skrifstofu Haga í haust. Eggert Jóhannesson

34-52% af viðskiptavinum verslana Haga, Hagkaups og Bónuss, nota sjálfsafgreiðslukassana, en kostnaður við að rekstur og uppsetningu þeirra hefur lækkað undanfarið í kjölfar tækniframfara. Sjá Hagar fram á að koma sjálfsafgreiðslukössum fyrir í níu verslunum til viðbótar á þessu ári og þá fleiri í Hagkaupum: fjórum þar og fimm í Bónus.

Hagar opna svo á næstunni nýja fullbúna Bónusverslun í Garðabæ þar sem Víðir var áður með verslun. Hún á að opna eftir 4-5 vikur, að sögn Finns. Þá er Bónusverslunin sem opnaði í Skeifunni í desember sögð ganga vel.

Hagar hagræða vöruhúsastarfsemi

Rekstur vöruhúsa verður hins vegar einfaldaður og sameinaður eftir föngum. Þar sem Hýsing, sem er í eigu Haga, var áður með föt verður nú þurrvara ýmis eins og nýlenduvörur. Segir Finnur ástæðu þess að Hagar minnki fataverslun sína einfaldlega vera minni fatasölu hérlendis. Önnur hver keypt flík Íslendinga sé í dag keypt erlendis.

Allt vöruhús Olís verður þá hjá Hýsingu, utan eldsneytisins. Þá stendur til að byggja nýtt kæli- og frystihús á lóð Haga við Korngarða, en í slíkum frystihúsarekstri segir Finnur að félagið sjái sóknarfæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK