Stoðir kaupa 10% í TM

Stoðir eiga nú stóran hlut í Símanum, Arion banka og …
Stoðir eiga nú stóran hlut í Símanum, Arion banka og TM. mbl.is/Golli

Fjárfestingafélagið Stoðir er orðinn stærsti hluthafi í Tryggingamiðstöðinni með 9,97% hlut í félaginu eftir viðskipti dagsins. Keypti félagið samtals 67.591.212 hluti í TM, en markaðsvirði hlutarins er um 2,2 milljarðar. Viðskiptin eru partur af hlutafjáraukningu Stoða, en nokkrir stórir hluthafar í TM notuðu öll hlutabréf sín í félaginu til að greiða fyrir hlutabréf í fjárfestingafélaginu S121, sem er aðaleigandi Stoða. S121 notaði svo bréf sín í TM til að kaupa í hlutafjáraukningu Stoða og á félagið eftir viðskiptin 64,6% í Stoðum.

Félögin sem seldu hlut sinn til S121 eru Helgafell ehf., Einir ehf og Riverside Capital.

Helgafell er í eigu Ara Fenger, Bjargar Fenger og Kristínar Vermundsdóttur, en stjórnarformaður félagins, Jón Sigurðsson, skrifaði undir tilkynningu um viðskiptin til Kauphallarinnar. Jón er stjórnarformaður í Stoðum og er eiginmaður Bjargar. Félagið seldi 35 milljón hluti í tengslum við viðskiptin.

Einir er í eigu Einars Arnar Ólafssonar, stjórnarmanns í TM. Seldi félagið 19,59 milljón hluti í TM vegna viðskiptanna. Riverside Capital ehf. er í eigu Örvars Kærnested, stjórnarmanns í TM, en félagið seldi 13 milljónir hluta vegna viðskiptanna.

Þetta er ekki eina stóra fjárfesting Stoða undanfarið, því félagið keypti fyrr í mánuðinum stóran hlut í Símanum og urðu eigendur að 8,11% hlutafés félagsins og er hlutur félagsins nú metinn á 3,1 milljarð. Þá hefur félagið keypt 4,65% í Arion banka, en sá hlutur er metinn á 6,7 milljarða. Nema heildareignir Stoða í þessum þremur félögum því 12 milljörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK