Pundið fellur með viðræðuslitum

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May.
Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May. AFP

Breska pundið hefur ekki staðið jafn illa að vígi og nú í marga mánuði gagnvart Bandaríkjadal en það hefur lækkað mjög það sem af er degi í kjölfar þess að samningaviðræður Verkamannaflokksins og Theresu May forsætisráðherra varðandi Brexit runnu út í sandinn.

Pundið stendur nú í 1,2752 dölum sem er lægsta gildi þess í fjóra mánuði. Evran hefur ekki verið hærri gagnvart pundi (87,60 pens) í þrjá mánuði.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði segja að vonir um mjúka Brexit-lendingu séu að fjara út og harðari leið blasi við. Pundið er nú 10% lægra gagnvar dal og evru en það var skömmu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna þegar Bretar samþykktu að ganga úr Evrópusambandinu í júní 2016. 

Formaður Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, sagði í dag að hann myndi berjast gegn Brexit-samningi ríkisstjórnarinnar í breska þinginu áfram þrátt fyrir að hann myndi skoða vel öll þau tilboð sem ríkisstjórnin leggi fram til þess að leysa þráteflið.

May samþykkti í gær að upplýsa um það fljótlega eftir mánaðamót hvenær hún myndi láta af embætti forsætisráðherra. 

Theresa May mun enn einu sinni fara með samninginn fyrir breska þingið og verður það í fyrstu viku júnímánaðar. Brexit átti að taka gildi 29. mars en eftir að þingmenn felldu samninginn hefur Evrópusambandið veitt Bretum frest til 31. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK