Verð á fjölbýli hækkaði í apríl

Verð á fjölbýli hækkaði öllu meira en verð sérbýlis, eða …
Verð á fjölbýli hækkaði öllu meira en verð sérbýlis, eða um 0,4% og verð á sérbýli um 0,1%. mbl.is/Sigurður Bogi

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli mars- og aprílmánaðar að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans. Verð á fjölbýli hækkaði öllu meira en verð sérbýlis, eða um 0,4% og verð á sérbýli um 0,1% samkvæmt tölum Þjóðskrár.

Þegar horft er yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,9% og verð á sérbýli um 6,5%. Nemur vegin árshækkun húsnæðisverðs nú 4,7%, sem er 0,4 prósentustiga hækkun frá fyrri mánuði.

Þá hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis um 0,5% milli mánaða í apríl og 2,8% á einu ári, eða nokkuð minna en fasteignaverð á árinu. Raunverð fasteigna breyttist því lítið milli mánaða.

Segir í Hagsjánni að þegar horft sé yfir lengra tímabil hafi hófleg hækkun fasteignaverðs síðustu mánuði náð að halda nokkurn veginn í við þróun verðbólgunnar án fasteignakostnaðar. Því hafi raunverð íbúðarhúsnæðis verið nokkuð stöðugt. Fór raunverðið hæst í október 2007 fyrir hrun en lækkaði svo mikið. Það náði aftur sama stigi í apríl 2017 og hefur síðan hækkað um u.þ.b. 8%.

Er árshækkun raunverðs því sögð orðin hóflegri en áður. Þannig var raunverð fasteigna nú í apríl um 1,8% hærra en í apríl 2018. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin tvö þar á undan. Samsvarandi tölur voru 5,6% fyrir apríl 2018 og 25% fyrir apríl 2017.

Sé litið á gögn í verðsjá Þjóðskrár Íslands, sem ekki eru nákvæmlega sömu gögn og standa á bak við vísitölu íbúðaverðs, sést mikill munur á verðþróun á nýju og eldra húsnæði. Þegar tímabilið janúar - mars í ár er borið saman við sömu mánuði í fyrra sést að nýjar íbúðir hafa hækkað um 7,5% á þessum tíma, en eldri íbúðir hafa hins vegar lækkað um 1,2%. Meðalbreytingin er 0,5% hækkun. Það eru því nýjar íbúðir sem leiða verðþróunina um þessar mundir.

Fram kemur í Hagsjánni að viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í apríl hafi verið ívið minni en síðustu mánuði þar á undan 2018, enda hafi páskarnir verið í apríl í ár. Fjöldi viðskipta fyrstu fjögurra mánaða ársins hafi þó verið nokkuð meiri en á sama tíma fyrir ári. Hins vegar hafi viðskipti á fyrstu fjórum mánuðum ársins verið ívið minni en var að meðaltali á öllu árinu 2018. „Það má því segja að fasteignamarkaðurinn sé tiltölulega stöðugur hvað fjölda viðskipta varðar,“ segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK