Leituðu til Icelandair strax í september

Viðræður um samruna WOW air og Icelandair áttu sér fyrst …
Viðræður um samruna WOW air og Icelandair áttu sér fyrst stað í septembermánuði að frumkvæði fulltrúa WOW air. mbl.is/​Hari

Fulltrúar WOW air leituðu til Icelandair Group með tillögur um samruna félaganna strax í byrjun septembermánaðar og viðræður þess efnis áttu sér stað á meðan að skuldabréfaútboð WOW air var enn í fullum gangi. Í upphafi setti Skúli Mogensen stofnandi WOW air fram þá kröfu að eignast 30% í sameinuðu félagi.

Þetta kemur fram í bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptafréttastjóra Morgunblaðsins, sem kom út í dag. Þar segir að viðræður félaganna hafi á þessum tímapunkti gengið svo langt að lögfræðilegir ráðgjafar Icelandair töldu mikilvægt að upplýsa markaðinn um að þær væru í gangi. Annað væri ekki forsvaranlegt.

Samkvæmt því sem fram kemur í bókinni fóru Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair og Ómar Benediktsson stjórnarmaður félagsins fram á það við fulltrúa WOW air á fundi 12. september að send yrði út tilkynning til Kauphallar um viðræðurnar. Á þá kröfu féllst Skúli ekki og viðræðurnar runnu út í sandinn.

Ekkert heyrðist fyrr en í nóvember

Skuldabréfaútboði WOW air lauk svo 18. september og söfnuðust þar alls 50,15 milljónir evra frá á fjórð tug þátttakenda, en um helmingur skuldabréfanna fór til aðila sem höfðu persónulega eða viðskiptalega tengingu við Skúla Mogensen og flugfélag hans.

Það kom svo eins og þruma úr heiðskíru lofti, þriðjudaginn 5. nóvember síðastliðinn, er tilkynning barst þess efnis að Icelandair væri búið að festa kaup á WOW air, með fyrirvörum.

Bogi Nils greindi frá því í kjölfarið að frumkvæðið að samruna félaganna hefði komið frá WOW air föstudaginn 1. nóvember og að viðræður um kaupin hefðu staðið yfir þessa fyrstu helgi nóvembermánaðar.

Samkvæmt bók Stefáns Einars runnu fyrstu þreifingar félaganna um samruna …
Samkvæmt bók Stefáns Einars runnu fyrstu þreifingar félaganna um samruna út í sandinn eftir að Icelandair fór fram á að tilkynning um þær yrði send til Kauphallar. Þetta var 12. september, sex dögum áður en skuldabréfaútboðinu var lokað. mbl.is/Elín Arnórsdóttir

Tilkynnt var um kaupin 41 degi eftir að skuldabréfaútboði WOW air lauk, en þeir fjárfestar sem tóku þátt í því, fyrir utan auðvitað Skúla sjálfan sem keypti skuldabréf í útboðinu fyrir 5,5 milljónir evra, höfðu ólíklega upplýsingar um það frekar en markaðurinn í heild sinni, að á sama tíma og WOW air bauð út skuldabréf var félagið í viðræðum við Icelandair um samruna, sem samkvæmt því sem fram kemur í bók Stefáns Einars voru á grundvelli þess að WOW air væri félag á fallanda fæti.

Eftir að tilkynning barst um kaupin fóru frekari samningaviðræður í gang og einn lykilþátta þar var að fá skuldabréfaeigendur WOW air, sem höfðu lagt félaginu til fé og vænst ákveðinnar ávöxtunar af þeirri fjárfestingu sinni, til þess að fallast á skilmálabreytingar og sendi Skúli Mogensen kröfuhöfum meðal annars bréf á hóp fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu til þess að reyna að fá þá til að liðka fyrir kaupunum.

Af kaupum Icelandair á WOW air varð á endanum ekki, þar sem fyrirvarar sem Icelandair setti höfðu ekki verið uppfylltir.

Skúli Mogensen, stofnandi WOW air.
Skúli Mogensen, stofnandi WOW air. mbl.is/RAX

Skuldabréfaeigendur töpuðu fjárfestingu sinni

Síðar kom svo Indigo Partners til sögunnar og hóf viðræður um fjárfestingu í WOW air um miðjan desembermánuð. Þá var farið fram á enn frekari eftirgjöf af hálfu þeirra sem höfðu keypt skuldabréf í útboði WOW air, en greint var frá því í fjölmiðlum að sú eftirgjöf sem farið var fram á næmi tugprósentum af höfuðstóli fjárfestingar þeirra.

Viðræður Indigo Partners og WOW air runnu svo út í sandinn 21. mars, eftir rúmlega þriggja mánaða samtal, þar sem WOW air hafði ráðist í ýmsar hagræðingaraðgerðir. Viku seinna var félagið svo gjaldþrota, eftir lokatilraun til þess að athuga hvort einhver möguleiki væri á því að Icelandair gæti komið að rekstrinum.

Skuldabréfaeigendur ákváðu á lokametrunum að taka félagið yfir með því að breyta kröfum sínum í hlutafé, eftir að ljóst var að WOW air hefði ekki bolmagn til þess að standa við 150 milljón króna vaxtagreiðslu til þeirra sem tóku þátt í útboðinu.

Tónninn var „eðlilega þungur“ í skuldabréfaeigendum eftir að WOW air var lýst gjaldþrota, sagði Guðmundur Ingvi Sigurðsson lögmaður þeirra við mbl.is 30. mars síðastliðinn, en síðan þá hafa kröfuhafar unnið að því að safna upplýsingum um útboðið og segir Guðmundur Ingvi í samtali við mbl.is að hann viti til þess að skiptastjórar séu að skoða hvernig „peningar komu inn og fóru út“ í tengslum við skuldafjárútboðið í haust.

Ólíklegt þykir að nokkuð fáist upp í almennar kröfur í þrotabú félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK