„Óvissan er enn til staðar“

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Isavia hefur gripið til ýmissa aðgerða til hagræðingar eftir fall WOW air í lok mars. Fyrir utan uppsagnir hjá dótt­ur­fé­lag­inu Frí­höfn­inni í lok mars hafði engum verið sagt upp þar til fyrr í dag.

„Við höfum dregið úr sumarráðningum og þar fyrir utan hefur verið slegið á frest fyrirhuguðum ráðningum. Síðan höfum við breytt til vaktakerfi og annað slíkt. Auk þess hefur ekki verið ráðið í störf sem hafa losnað,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, við mbl.is.

Eins og fram kom í tilkynningu frá Isavia í hádeginu var 19 starfsmönnum sagt upp og til viðbótar býðst 15 starfsmönnum lægra starfshlutfall. Aðalástæðan er fall WOW air en einnig breytt flugáætlun Icelandair í kjölfar kyrrsetningar á MAX-vélum Boeing. 

Enn er ekki ljóst hvenær hægt verður að aflétta kyrrsetningu á MAX-vélunum en fram kom í svari Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, við fyrirspurn mbl.is í gær að ferlið taki lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir. Óvissan hefur áhrif á sumaráætlun Icelandair, sem gildir til 15. september.

Guðjón segir að erfitt sé að segja til um hvort frekari uppsagnir séu í pípunum. „Óvissan er enn til staðar en við getum ekkert tjáð okkur um það frekar á þessari stundu.“

Brit­ish Airways og Wizz Air eru aft­ur á móti sögð fjölga ferðum frá London til Íslands í vet­ur. Spurður hvort vænta mætti frekari hreyfinga á ferðum erlendra flugfélaga til Keflavíkur sagði Guðjón að Isavia væri í stöðugum samskiptum við flugfélög.

„Það má orða það þannig að það er pláss á vellinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK