Best á „þetta reddast“-mælikvarðanum

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kynnti niðurstöður viðskiptaháskólans IMD á …
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kynnti niðurstöður viðskiptaháskólans IMD á morgunfundi Viðskiptaráðs um samkeppnishæfni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland lendir í 20. sæti á lista yfir samkeppnishæfni ríkja. Síðast lenti það í 24. sæti.

Sú er niðurstaða nýrrar úttektar svissneska viðskiptaháskólans IMD á samkeppnishæfni ríkja. Síðast þegar úttektin var gerð, í fyrra, hafði Ísland fallið niður um fjögur sæti, úr 20. í 24. Nú er það aftur komið í 20. sæti. Það er þannig að ná sér á strik.

Konráð Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs kynnti niðurstöður könnunarinnar á fundi Viðskiptaráðs í morgun um samkeppnishæfni Íslands árið 2019.

Konráð sagði að fréttirnar væru fréttir af varnarsigri íslenska hagkerfisins. Niðurstaðan byggir um margt á mati stjórnenda íslenskra fyrirtækja á vissum þáttum og þegar leitað var eftir mati þeirra vofðu verkföll yfir og fall WOW var í aðsigi. Því kom Konráði á óvart að stjórnendur skyldu meta stöðuna jákvæða.

„Ég bjóst við dræmri niðurstöðu,“ sagði hann. Svo varð ekki, heldur er Ísland á leiðinni upp listann. Það er þó enn langt undir öllum Norðurlöndunum. Singapúr er í fyrsta sæti meðal þjóða.

Það er ýmislegt sem drífur hækkun Íslands á listanum áfram, að sögn Konráðs. Margt hefur þróast til betri vegar og efnahagslífið er á ágætu róli.

Það eru vissir þættir sem færa Ísland ofarlega á listann yfir samkeppnishæfni. Opinber fjármál eru góð, eins og litlar erlendar skuldir ríkissjóðs. Atvinnustigið er sömuleiðis með því hæsta sem gerist í heiminum. Þannig eru samfélagslegir innviðir betri en gerist annars staðar, eins og til dæmis í sérstöðu okkar í vatnsbirgðum á hvern mann. Þar erum við í 1. sæti.

Konráð benti þá á að samkvæmt niðurstöðu IMD-háskólans skorar Ísland mjög hátt í að bregðast við ógnum og tækifærum. „Við erum í fyrsta sæti í heiminum í „þetta reddast“-mælikvarðanum,“ sagði Konráð hýr í bragði. Ísland bregst við efnahagslegum breytingum og höggum betur en flestir.

Einangrunarhyggja stjórnvalda áhyggjuefni

Það er sitthvað sem betur mætti fara í málefnum Íslendinga, sem yki samkeppnishæfni þeirra á alþjóðavettvangi. Konráð nefnir að í könnun IMD á meðal íslenskra stjórnenda gætir vaxandi áhyggja af einangrunarhyggju stjórnvalda. Fyrirtæki hafa áhyggjur af þróun í þá átt og Ísland hefur lækkað á lista yfir einangrunarhyggju stjórnvalda.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra og Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra og Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á fundi Viðskiptaráðs í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sömuleiðis nefndi Konráð nokkra beina þætti sem Ísland þarf að bæta úr ef það vill bæta samkeppnishæfni sína. Hér eru mjög háir skattar, sérstaklega þegar greiðslur í lífeyrissjóði eru teknar með. Skattaumhverfið þarf að vera hagfelldara ef gott á að heita.

Ríkiseign fyrirtækja ógnar sömuleiðis viðskiptum, að sögn Konráðs. Sala ríkisfyrirtækja í samkeppnisrekstri við einkafyrirtæki væri þannig æskileg. Helst myndi skipta máli að selja bankana, sagði Konráð, sem eru stærstu fyrirtækin.

Peningastefna þarf að vera góð hér á landi, sagði Konráð. Til dæmis þarf að vanda til verka við fyrirhugaða sameiningu FME og Seðlabankans. Þá þarf samkeppnislöggjöfin að verða skilvirkari.

Ýmislegt getur valdið því að fyrirtæki færi sig annað og við því þarf að sporna. Áhættufjármagn er ekki nægilega aðgengilegt hérna, sem lítil og ný fyrirtæki þurfa nauðsynlega. Þar mætti sömuleiðis breyta stuðningskerfi við nýsköpun, sagði Konráð. Að lokum þarf að sögn Konráðs að leggja meiri áherslu á vísindagráður í háskólum, svonefnd STEM-fög.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK