„Vita ekki hver er næstur“

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir félagsmenn hafa áhyggjur …
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir félagsmenn hafa áhyggjur af hagræðingu á fjármálamarkaði sem feli fyrst og fremst í sér uppsagnir. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Fólk hefur miklar áhyggjur og það er ekkert leyndarmál að sumir okkar félagsmanna segja að þeir taki mjög vel til á borðinu sínu fyrir hver mánaðamót vegna þess að þeir vita ekki hver er næstur. Það er hræðileg staða.“

Þetta segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), í samtali við mbl.is. Hag­ræð­ing­ar­að­gerðir á fjár­mála­mark­aði hafa færst í aukana að und­an­förnu, en fyrir viku síðan sagði Íslands­banki upp 16 starfs­mönn­um, bæði úr höf­uð­stöðvum og úti­búa­neti og í fyrradag var níu starfsmönnum Arion banka sagt upp sem flestir störfuðu í höfuðstöðvum bankans. 

200 störf á ári sem tapast vegna hagræðingar

Friðbert segir að allt frá hruni hafi starfsfólk fjármálafyrirtækja þurft að búa við mikla óvissu en að hægt hafi á uppsögnum fyrir fjórum árum. Nú séu uppsagnir hins vegar aftur að færast í aukana. „Við teljum að þetta séu um 200 störf á ári í heildina síðustu fjögur til fimm ár sem eru að tapast.“

Hagræðinguna má rekja til samspils nokkurra þátta, að mati Friðberts. „Það er búið að vera að dynja á starfsmönnum í þessum fyrirtækjum í tíu ár. Bæði er búið að vera að loka útibúum og sameina deildir og taka tæknina meira og meira í gagnið,“ segir Friðbert og vísar í aukna tækni- og sjálfvirknivæðingu á sviði fjármálafyrirtækja.

„Á íslensku þýðir hagræðing að segja upp fólki“

SSF hafa ítrekað í gegnum tíðina að ekki sé verið að standa í uppsögnum þrátt fyrir hagræðingu.

„Á íslensku þýðir hagræðing að segja upp fólki. En við höfum ítrekað að það sé ekki verið að standa í uppsögnum heldur að starfsmannavelta, sem alltaf er í þessum fyrirtækjum, sé látin ráða. Það hefur verið það sem af er ári þangað til þessar uppsagnir komu upp hjá Íslandsbanka um daginn og hjá Arion í fyrradag. Þetta kemur afskaplega illa við fólk að þetta skuli alltaf vera í gangi. Þetta er í allri orðræðu að það þurfi enn og aftur að hagræða.“

Friðbert segir það hins vegar liggja ljóst fyrir að hagræðingu, og uppsögnum sem henni fylgja, sé ekki lokið. „En við reynum að hægja á því að menn standi í uppsögnum. Það sem við hræðumst fyrst fremst er þegar fólk er komið yfir fimmtugt og hefur gert bankastarf að ævistarfi, við reynum allt sem við getum til að koma í veg fyrir að það fólk missi vinnuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK