1,7% hagvöxtur

mbl.is/Ómar

Landsframleiðslan á 1. ársfjórðungi 2019 jókst að raungildi um 1,7% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. 

Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, saman um 2,8%. Vöxtur einkaneyslu og samneyslu mældist jafn, eða 2,8%, en þrátt fyrir umtalsverðan vöxt í íbúðafjárfestingu dróst heildarfjármunamyndun saman um 9,4%.

Samkvæmt birgðaskýrslum Hagstofunnar drógust birgðir á 1. ársfjórðungi 2019 saman um tæplega 8 milljarða króna á verðlagi ársins, sem skýrir talsverð neikvæð áhrif birgðabreytinga á hagvöxt, en aukning mældist í birgðum á sama tímabili fyrra árs.

Þar sem útflutningur jókst meira en innflutningur á 1. ársfjórðungi 2019 er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar jákvætt. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 33,2 milljarðar króna á tímabilinu.

Íbúðafjárfestingar aukast um 58,4%

Heildarfjármunamyndun dróst saman um 9,4% á 1. ársfjórðungi 2019 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu mældist 33,6% sem skýrist meðal annars af sölu og útflutningi flugvéla og skipa á tímabilinu, en inn- og útflutningur skipa og flugvéla kemur með beinum hætti fram í fjármunamyndun, ýmist til hækkunar eða lækkunar. Þessi stærð skiptir oft sköpum varðandi heildarfjárhæðir í fjárfestingu og utanríkisviðskiptum en áhrif á landsframleiðslu eru aftur á móti lítil sem engin þar sem fjárfestingaráhrifin vega á móti áhrifum á utanríkisviðskiptin.

Vöxtur íbúðafjárfestingar mældist aftur á móti umtalsverður á 1. ársfjórðungi 2019 samanborið við fyrra ár, eða 58,4%. Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði hefur ekki áður mælst jafn mikil að raungildi á ársfjórðungsgrunni. Mat Hagstofunnar á íbúðafjárfestingu byggir meðal annars á gögnum frá Þjóðskrá Íslands sem heldur ítarlega skrá yfir fjölda íbúða sem eru í byggingu á hverjum tíma, sem og umfang og framvindu einstakra framkvæmda.

33,2 milljarða afgangur af vöruskiptum

Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 33,2 milljarðar króna á 1. ársfjórðungi 2019, en það er mun hærri fjárhæð en á sama tímabili árið áður (9,3 milljarðar króna á verðlagi þess árs).

Vöruskiptajöfnuður var jákvæður um 3,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2019, en afgangur hefur ekki mælst af vöruviðskiptum á ársfjórðungsgrunni síðan á 1. ársfjórðungi 2015. Vöruútflutningur nam 176,7 milljörðum króna og vöruinnflutningur nam 173,2 milljörðum króna á sama tímabili.

Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 29,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2019. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 131,7 milljörðum króna og innflutningur á þjónustu 102 milljörðum króna.

Samkvæmt mælingum Hagstofunnar drógust birgðir saman um tæplega 8 milljarða króna á verðlagi ársins á 1. ársfjórðungi 2019. Það sem vegur þyngst í birgðabreytingum er samdráttur í birgðum sjávarafurða en engin loðna veiddist á tímabilinu. Þá drógust birgðir olíu og annarra rekstrarvara einnig nokkuð saman, en töluverð aukning mældist í birgðastöðu þessara þátta á 4. ársfjórðungi 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK