Þrotabú Kaupþings, eigandi tískuvörukeðjunnar Karen Millen, er þessa dagana að kanna með sölu á keðjunni. Verið er að fara yfir tilboð, sem ekki eru bindandi, og annast Deloitte skoðunina fyrir hönd Kaupþings, að því er segir í frétt Sky News. 

Um 1.700 manns starfa hjá Karen Millen en alls eru verslanirnar 57 talsins. Á rekstrarárinu sem lauk í febrúar í fyrra nam tap keðjunnar fyrir skatta 9,5 milljónum punda af 161,9 milljóna punda sölu á rekstrarárinu, segir í frétt Times.

Hjónin þáverandi Karen Millen og Kevin Stanford settu fyrirtækið af stað árið 1981 en keðjan var seld til Oasis fyrir tæplega 100 milljónir punda árið 2004. Karen Millen tapaði máli gegn Kaupþingi um að setja á laggirnar nýtt fyrirtæki undir sama nafni og varð gjaldþrota fyrir tveimur árum vegna vangoldinna skatta.

Heimildir Sky News herma að það muni taka nokkra mánuði að ljúka við söluna ef af verður og ekki liggi fyrir hvað tilboðsgjafar eru reiðubúnir til að greiða fyrir rekstur tískuvörukeðjunnar.

Í vikunni munu lánadrottnar Arcadia Group, sem er í eigu Philip Green, greiða atkvæði um áætlun sem miðar að endurskipulagningu rekstrar. Ef ekki þá er líklegt að Arcadia, sem á og rekur Top Shop, Burton og Dorothy Perkins, fari í þrot. 

Heimildir Sky herma að lífeyrissjóðir, sem eru stærstu lánadrottnar Arcadia, ætli að greiða atkvæði með endurskipulagningu rekstrar.

Frétt Sky News

Frétt Sunday Times