Lækkunin nær ekki til verðtryggðra lána

Gylfi Magnússon segir lántakendur ekki geta búist við því að …
Gylfi Magnússon segir lántakendur ekki geta búist við því að vextir verðtryggðra lána verði í takti við vaxtaákvarðanir Seðlabankans. mbl.is/​Hari

Vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands hafa lítil áhrif, ef einhver, á vexti verðtryggðra lána og geta lántakendur ekki búist við því að þróun þessa vaxta sé í takti við hvort annað, segir Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Fram hefur komið að Lífeyrissjóður verzlunarmanna ákvað í síðustu viku að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána úr 2,06% í 2,26%. Fyrir skömmu lækkaði Seðlabankinn vexti sína um 0,5%.

„Fyrst og fremst verður að segja að stýrivextir Seðlabankans eru óverðtryggðir og er mjög lítið samband milli þeirra annars vegar og svo hins vegar verðtryggðra skuldabréfa til langs tíma. Þannig að það eru nánast ótengd mál,“ segir Gylfi.

Hann segir þá sem taka verðtryggð lán ekki geta búist við því að vaxtastig þeirra lána verði í takti við vaxtaákvarðanir Seðlabankans. „Það er svo lítið samhengi þar á milli. En þeir með óverðtryggðu lánin mega búast við því að vextirnir hreyfast í einhverjum takti við vexti Seðlabankans.“

„Það er miklu meiri tenging hvað varðar óverðtryggðu vextina,“ bætir hann við.

Þýðir þetta að vextir Seðlabankans hafa minni áhrif á þann hluta hagkerfisins sem er með verðtryggð lán?

„Já, það er alveg rétt og það er vel þekkt í hagfræðiheiminum að ákvarðanir Seðlabankans hafa eitthvað minni áhrif vegna þess hve verðtryggingin er útbreidd.“

Rýr viðmið

Lífeyrissjóður verzlunarmanna segir á vef sínum að stjórn sjóðsins hafi samþykkt „breytingar á lánareglum þannig að í stað viðmiðs við nefndan skuldabréfaflokk verða breytilegir verðtryggðir vextir sjóðfélagalána ákvarðaðir af stjórn“.

Jafnframt hafi undanfarin ár „breytilegir vextir verðtryggðra lána tekið sjálfkrafa breytingum í samræmi við breytingu á ávöxtunarkröfu“ ákveðins skuldabréfaflokks. Þá hafa „viðskipti með þennan skuldabréfaflokk [...] farið verulega minnkandi undanfarin misseri og er hann því ekki eins virkt viðmið fyrir vexti og áður“.

Gylfi tekur undir þetta sjónarmið og segir þau skuldabréf sem notuð hafa verið sem viðmið við ákvörðun verðtryggðra breytilegra vaxta hafa orðið mjög rýr og lítil viðskipti með bréfin „sem gerir þau að slæmu viðmiði“.

„Þetta á sér stað vegna þess að ríkissjóður er ekki að taka mikið af lánum og að Íbúðalánasjóður er að skreppa saman,“ útskýrir hann.

„Vextir á fasteignalánum – reyndar líka á skuldabréfum, til dæmis spariskírteinum og skuldabréfum íbúðalánasjóðs – þeir höfðu farið lækkandi í því sem næst aldarfjórðung þegar þeir voru sem hæstir og hafa aldrei verið lægri en nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK