Blanda af mennskri greind og gervigreind

Helga Valfells hjá Crowberry Capital, Guðmundur Kristjánsson stofnandi Lucinity og …
Helga Valfells hjá Crowberry Capital, Guðmundur Kristjánsson stofnandi Lucinity og Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri Fjártækniklasans. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Lucinity tilkynnti í dag að það hefði safnað sprotafjármagni fyrir tvær milljónir dollara, en fyrirtækið gerir viðskiptavinum sínum kleift að berjast gegn peningaþvætti með svokallaðri aukagreind. Guðmundur Kristjánsson stofnandi og framkvæmdastjóri Lucinity, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða fyrsta aukagreindarfyrirtækið sem sé stofnað hér á landi, en fyrirtækið mun starfa bæði hér og í New York.

„Aukagreind er þegar þú blandar saman mennskri greind og gervigreind,“ segir Guðmundur, sem stofnaði fyrirtækið í nóvember síðastliðnum eftir að hafa starfað við þróun regluvörsluhugbúnaðar erlendis í nokkur ár, nú síðast hjá Citigroup þar sem hann leiddi 120 manna hugbúnaðarteymi.

Hann segir sára þörf fyrir betri lausnir til þess að takast á við peningaþvætti, en samkvæmt fréttatilkynningu félagsins verja banka í Bandaríkjunum og ríkjum ESB samanlagt meira en 40 milljörðum dollara í slíkt starf á ári hverju, án þess að það skili miklum árangri.

„Ef þú hugsar um peningaþvott, þá er peningaþvottur í heiminum 2,4 þúsundir milljarða dollara á ári, sem gerir það að fimmta stærsta hagkerfi í heimi og í dag er verið að ná í sirka 1% af þessum peningum í gegnum löggæsluaðgerðir,“ segir Guðmundur.

Vélarnar læra af manninum

Aukagreindin svokallaða er lykillinn að því sem fyrirtækið stefnir á, að setja á markað öflugan hugbúnað, ClearLens, sem geti komið í veg fyrir peningaþvætti í auknum mæli en nú er gert.

Guðmundur segir að þau kerfi sem bankar og aðrar fjármálastofnanir noti í dag til þess að sporna gegn peningaþvætti séu einföld reglukerfi. Þau séu lítil hindrun fyrir þá sem ætli sér að stunda peningaþvætti, þar sem þeir einfaldlega læri reglurnar hinumegin frá eða fari framhjá þeim.

Þegar að kerfið sé búið aukagreind verði það hins vegar erfiðara að fara framhjá því, þar sem hugbúnaðurinn sé alltaf að læra af manninum og öfugt.

„Vélarnar læra í gegnum merkingu á gögnum. Maðurinn þarf að segja, þessi gögn eru svona, þessi gögn og þessi gögn eru svona. Það sem við erum búin að þróa hjá okkur er að við getum sett inn í verkferilinn hjá bönkunum, hvað eru gögn sem eru með gott spágildi um peningaþvott og hvað eru gögn sem hafa vont spágildi. Við látum svo gervigreindarvélina segja fólkinu frá því hvað hún er að sjá og benda starfsmönnum á að kíkja á ákveðna hluti,“ segir Guðmundur, en merki fyrirtækisins er svokallað „eilífðarmerki“ sem vísar til þess stanslausa samtals vélar og manns sem á sér stað í þessu ferli.

„Ef það er stanslaust verið að læra og stanslaust verið að finna nýja hluti, þá verður erfiðara fyrir þá sem eru að stunda peningaþvottinn að læra reglurnar og komast framhjá þeim.“

Fann fyrir miklum áhuga fjárfesta

Fjárfestingasjóðurinn Crowberry Capital í Reykjavík leiðir fjárfestahópinn á bak við sprotafjármögnunina, en sjóðurinn fjárfestir í tæknifyrirtækjum sem stefna á alþjóðlega markaði. Guðmundur segir að hann hafi strax fundið fyrir miklum áhuga fjárfesta á fyrirtækinu, enda var það stofnað á svipuðum tíma og Danske Bank-peningaþvættisskandallinn var í hámæli.

Fjármögnunin kláraðist að mestu leyti fyrir tveimur mánuðum, segir Guðmundur, en starfsmenn Lucinity eru nú þegar orðnir átta talsins, bæði í Reykjavík og í New York. Starfsmenn hafa flutt hingað til lands gagngert til þess að koma til starfa hjá fyrirtækinu, meðal annars einn ástralskur doktor í gervigreind sem áður starfaði hjá breska fjármálaeftirlitinu.

Ákváðu að ráða meira á Íslandi en í New York

Guðmundur segist reikna með því að starfsmenn verði orðnir 10-12 í lok þessa árs og að fyrirtækið muni svo „stækka svolítið vel“ á næstu tveimur árum.

Hann segir að Ísland hafi skyndilega orðið kjörstaður til þess að stofna nýtt hugbúnaðarfyrirtæki, þar sem góð fyrirtæki hafi ákveðið að fara úr landi og önnur lagt upp laupana með þeim afleiðingum að öflugt starfsfólk hafi verið á lausu hérna heima.

„Þá ákváðum við að ráða meira hérna á Íslandi heldur en í New York,“ segir Guðmundur, sem nefnir einnig að ef ekki væri fyrir starf Gunnlaugs Jónssonar hjá Fjártæknisklasanum og aðkomu Crowberry Capital myndu hlutirnir ekki ganga upp á Íslandi.

„Það eru þessar tvær einingar sem gerðu það að verkum að þetta fyrirtæki er að verða til hérna heima, en ekki bara í New York.“

Í fréttatilkynningu frá Lucinity er haft eftir Helgu Valfells, einum stofnanda Crowberry Capital, að sjóðurinn sé sannfærður um að mikil þörf sé fyrir nýja nálgun á markaðnum fyrir tækni sem vinni gegn peningaþvætti, nýleg hneykslismál vegna peningaþvættis sýni það.

„Hópurinn að baki Lucinity hefur að okkar mati gríðarlega reynslu af kerfum á þessu sviði og afar hugvitsamlega nálgun, sem við höldum að muni marka þáttaskil fyrir þau fyrirtæki sem berjast gegn peningaþvætti,“ er haft eftir Helgu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK