Spá 1% raunhækkun fasteignaverðs

Húsnæðisverð hefur hækkað hratt undanfarin ár, en nú hægist á.
Húsnæðisverð hefur hækkað hratt undanfarin ár, en nú hægist á. mbl.is/Hari

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að verð íbúðarhúsnæðis muni hækka rólega næstu ár, en þó hraðar en verðlag almennt. Gert er ráð fyrir um 4% árlegri hækkun næstu þrjú ár, sem er um eitt prósent umfram almenna verðlagsþróun. Þetta kemur fram í nýrri hagsjá bankans.

Fasteignaverð hækkar mest í Reykjanesbæ og á Akranesi milli ára. Segir í hagsjánni að sá tími að höfuðborgarsvæðið leiði þróun fasteignaverðs sé liðinn. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkar um eitt prósent í fjölbýli og tvö prósent í sérbýli milli ára. 

Athygli vekur að í Árborg hækkar fasteignaverð í fjölbýli um 15% á sama tíma og sérbýli lækkar lítillega í verði. Sömu sögu, en þó ekki jafnýkta, er að segja af Akureyri þar sem fjölbýli hækkar um rúm 5% en sérbýli lækkar um 1%.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði mun minna í fyrra en í …
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði mun minna í fyrra en í sumum öðrum stórum sveitarfélögum. Kort/mbl.is

Eftir sem áður er fasteignaverð þó hæst á höfuðborgarsvæðinu. Meðalfermetraverð í Reykjavík var um 447 þúsund krónur, en fermetraverð á Akureyri er um 75% af því, í Reykjanesbæ og Akranesi um 70% og í Árborg 65% af reykvísku. Segir bankinn að fari sem horfir muni munur á Reykjavík og öðrum stærri sveitarfélögum landsins fara áfram minnkandi. Engu að síður hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað næstmest af sveitarfélögunum stóru frá árinu 2013.

Fermetraverð er sem fyrr hærra á Stór-Reykjavíkursvæðinu en annars staðar …
Fermetraverð er sem fyrr hærra á Stór-Reykjavíkursvæðinu en annars staðar á landinu. mbl.is/Kort




mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK