Síminn stærstur á ný

Síminn er stærstur á farsímamarkaði á ný.
Síminn er stærstur á farsímamarkaði á ný. mbl.is/Hari

Síminn hefur mestu markaðshlutdeild símafyrirtækja á farsímamarkaði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um stöðuna á markaðnum í árslok 2018.

Í árslok voru 34,5% landsmanna með farsíma hjá Símanum. Hin tvö stóru fyrirtækin á markaðnum, sem bæði voru stærri en Síminn fyrir ári síðan, eru skammt undan. Markaðshlutdeild Nova er 32,1% og Vodafone/Sýnar 31,1%.

Alls eru 486.979 virk símkort á íslenska farsímanetinu og hafði þeim fjölgað um 5,4% milli ára. Á sama tíma fækkar fastlínusímum um 5,5% og eru nú tæplega 125.000 á skrá. Inni í þeim tölum eru bæði heimasímar einstaklinga og fyrirtækjasímar (það er, öll númer sem byrja á 4 og 5). Þá dregst fjöldi hringdra mínútna úr fastlínusímum saman um tæp 19% milli ára og niður í rúmar 223 milljónir mínútna.

150-földun í gagnamagni á áratug

Mikil breyting hefur orðið á eðli farsímaþjónustu undanfarin ár. Áður fyrr var söluvaran símtöl og sms, sem notendur greiddu sérstaklega fyrir. Nú á dögum er þessi þjónusta nær alltaf innifalin í áskriftarpökkum viðskiptavina, og verðmiðinn ræðst einungis af gagnamagninu, þeim fjölda gígabæta sem innifalinn er í áskriftinni.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands sem birt var með ársuppgjöri Símans í febrúar sagði Orri Hauksson, forstjóri fyrirtækisins, að „sérstaklega hart [væri] barist á íslenskum markaði fyrir fjarskipti og upplýsingatækni.“ Verð á farsímamarkaði væru áfram undir miklum þrýstingi og væru nú íslensk verð ein þau lægstu í vestrænum heimi.

Á síðasta ári notuðu Íslendingar 36,5 milljónir gígabæta af gagnamagni á farsímaneti, 43% meira en árið á undan. Jafngildir það tæpum níu gígabætum á hvert mannsbarn í mánuði.

Til samanburðar var notkunin einungis 243 þúsund gígabæt árið 2009 og hefur því 150-faldast á níu ára tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK