Segja að brjálað hafi verið að gera í sölu ferðavagna

Hjólhýsi er komin til að vera hér á Íslandi að …
Hjólhýsi er komin til að vera hér á Íslandi að mati framkvæmdastjóra Víkurverks. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil sala hefur verið í ferðavögnum nú í sumar, samkvæmt framkvæmdastjórum stærstu ferðavagnaverslana hér á landi, Víkurverks og Útilegumannsins. Eru framkvæmdastjórarnir, þau Arnar Barðdal hjá Víkurverki og Hafdís Elín Helgadóttir hjá Útilegumanninum, sammála um að það hafi verið „brjálað að gera“.

„Þetta hefur verið svakalega mikil sala, og ég held að góða veðrið nú í byrjun sumars sé aðalástæðan,“ segir Arnar í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að það hafi komið á óvart hvað árið byrjaði vel í sölu á ferðavögnum. „Fólk kom og forpantaði hjólhýsi í miklum mæli í byrjun ársins. Þetta kemur á óvart því bílasala hefur dregist saman um 30-40% og við miðum okkur gjarnan við það.“ Arnar segir að hægst hafi aðeins á sölu á nýjum vögnum í maí, en vitlaust hafi verið að gera í sölu á aukahlutum og öðru slíku, sem og í sölu á notuðum vögnum. „Það hefur selst miklu meira af notuðum vögnum en í fyrra, og þar er mikil aukning. Í aukahlutunum, fortjöldum, borðum, stólum og slíku, er líklega 35% aukning milli ára.“ Segir Arnar að góða veðrið hafi haft þau áhrif að fólk hafi farið fyrr af stað í útilegur, og því byrjað fyrr að kaupa sér aukahluti.

Hjólhýsin komin til að vera

Hann segir aðspurður að 90% af ferðavögnum sem Víkurverk selur séu hjólhýsi, en einnig seljist tjaldvagnar og húsbílar.

„Þetta hefur þróast eins og í Evrópu, og hjólhýsin eru komin til að vera.“

Mörg ár eru síðan ný fellihýsi hættu að seljast hér á landi, en Arnar segir að slíkir vagnar seljist aðeins í Bandaríkjunum og á Íslandi. Ólíkar reglur séu á milli landanna, og því sé kostnaðarsamt að laga fellihýsin að evrópskum reglugerðum.

Hann segir að það góða við hjólhýsin sé að verðmæti þeirra haldist vel í gegnum árin, og hægt sé að líta á þau sem fjárfestingu. „Þau duga í 30-50 ár.“

Arnar segir að lokum að hann hafi orðið var við að margir viðskiptavinir séu að kaupa sér notuð hjólhýsi í fyrsta skipti.

Hafdís segir að hjólhýsin „mokist út“, ný og notuð. „Landinn er bara að ferðast um landið. Veðrið spilar inn í, og svo mögulega gjaldþrot WOW air sem hefur valdið verðhækkunum á flugfargjöldum.“

Hún segir að tjaldvagnar hafi selst vel líka. „Við erum með þrjár gerðir af Combi Camp, og tvær þeirra eru uppseldar. Það er allt að verða tómt hjá mér í salnum.“

Spurð um helstu nýjungar á sviði ferðavagna nefnir Hafdís að mikil breyting hafi orðið á útliti hjólhýsanna, bæði að innan og utan, auk þess sem mörg hver séu þau á hærri dekkjum, sem henti Íslendingum mjög vel, og falli í kramið. „Svo eru uppblásnu fortjöldin búin að vera vinsæl í nokkur ár. Þar er maður laus við allar súlur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK