Fyrrverandi aðstoðarmaður Obama tekur við AGS

David Lipton, starfandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
David Lipton, starfandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ljósmynd/Skjáskot

Bandaríkjamaðurinn David Lipton hefur tekið við sem tímabundinn forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Lipton tekur við af Christine Lagarde sem lét af embætti í dag til að taka við stöðu seðlabankastjóra Evrópu.

Í tilkynningu frá AGS segir að Lipton hafi gegnt stöðu aðstoðarforstjóra sjóðsins frá árinu 2011 en hann var áður ráðgjafi ríkisstjórnar Baracks Obama og sat í þjóðaröryggisráði. Þá var hann undirráðherra í ríkisstjórn Bill Clinton og sá um alþjóðleg fjármál.

Á níunda áratugnum aðstoðaði hann ríkisstjórnir Rússlands, Póllands og Slóveníu á breytingarskeiði sínu frá kommúnisma til kapítalisma, að því er fram kemur í tilkynningunni eftir að hafa áður starfað hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og unnið að málefnum þróunarríkja. Lipton hefur doktorsgráðu í hagfræði frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.

Christine Lagarde, nýr seðlabankastjóri Evrópu.
Christine Lagarde, nýr seðlabankastjóri Evrópu. AFP

Lipton mun gegna embættinu þar til nýr forstjóri AGS hefur verið skipaður. Þeirri hefð var komið á við stofnun AGS og Alþjóðabankans eftir seinni heimsstyrjöld að Evrópuríki og Bandaríkin skipti með sér verkum á þann hátt að forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé Evrópubúi en forseti Alþjóðabankans Bandaríkjamaður. Frá þeirri reglu hefur aldrei verið vikið.

Kosið verður um framtíðareftirmann Lagarde á næstunni og hafa öll aðildarríki sjóðsins — nær öll ríki heims — atkvæðisrétt, en atkvæðavægi landa byggist að miklu leyti á þeim eignum sem löndin hafa lagt í sjóði AGS.

Með uppgangi hagkerfa ýmissa nýþróaðra ríkja á síðustu árum hafa ýmsir efast um réttmæti einokunar Evrópuþjóða og Bandaríkjanna á þessum tveimur áhrifamestu alþjóðastofnunum heimshagkerfisins, og því spurning hvort skipaður verði í fyrsta sinn forstjóri sem ekki kemur frá aðildarríki ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK