FME segir stjórnarmenn LV enn sitja

Í bréfi FME til stjórnar sjóðsins segir að stofnunin sé …
Í bréfi FME til stjórnar sjóðsins segir að stofnunin sé „sammála því mati stjórnar lífeyrissjóðsins að stjórnarmenn, sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars sl., séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins og beri skyldur sem slíkir.“ mbl.is/Eggert

Fjármálaeftirlitið lítur svo á og gaf það álit til stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, að stjórn sjóðsins eins og hún var tilkynnt til FME í mars sitji enn, þrátt fyrir að fulltrúaráð VR hafi ákveðið að draga umboð þeirra fjögurra stjórnarmanna sem sjóðurinn skipar í stjórn, til baka.

Í bréfi FME til stjórnar sjóðsins, sem sent var í dag, segir að stofnunin sé „sammála því mati stjórnar lífeyrissjóðsins að stjórnarmenn, sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars sl., séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins og beri skyldur sem slíkir.“

FME segir að af gögnum málsins megi ráða, að afturköllun umboðsins og skipan nýrra stjórnarmanna stafi „frá fulltrúaráði VR en ekki stjórn VR eins og gildandi samþykktir lífeyrissjóðsins kveða á um,“ og segir með því að þar sem stjórn VR hafi skipað stjórnarmennina, hafi það ekki verið fulltrúaráðsins að afturkalla umboð þeirra.

Óvissa uppi í málinu

Fram kemur í áliti FME að í samþykktum lífeyrissjóðsins sé ekki fjallað um heimildir til að afturkalla tilnefningar og því sé það „álitamál hvort að í tilnefningarréttinum felist takmarkalaus heimild til afturköllunar.“

Segir FME í bréfi sínu að í félagarétti sé það „almennt viðurkennt“ að þeim sem tilnefni stjórnarmenn sé heimilt að afturkalla slíka tilnefningu, en að ef horft sé til laga um hlutafélög megi „leiða líkur að því að heimild til afturköllunar sé ekki án takmarkana“ og „hugsanlegt“ sé að „afturköllun geti talist ólögmæt og þannig bakað bótaskyldu.“

Þá segir í niðurstöðunni að ef ákvörðun VR um afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna „nær fram að ganga megi líta svo á að um tilraun til beinnar íhlutunar í stjórn lífeyrissjóðsins sé um að ræða, sem með óbeinum hætti er ætlað að færa ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins. Það vegur að sjálfstæði stjórnar og góðum stjórnarháttum.“

„Fjármálaeftirlitið vill, með hliðsjón af þeirri óvissu sem einkennir málið, beina því til stjórnar lífeyrissjóðsins að taka samþykktir sjóðsins til skoðunar varðandi hvort og þá við hvaða aðstæður tilnefningaraðilar geti afturkallað umboð stjórnarmanna, m.a. til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna gagnvart hagsmunum tilnefningaraðila,“ segir í niðurlagi bréfsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK