Sala mun hefjast á kjörtímabilinu

Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason Rax / Ragnar Axelsson

„Í mínum huga yrði það mikið áfall, að minnsta kosti fyrir mig sem stjórnmálamann ef þessu kjörtímabili lyki án þess að fyrsta skrefið í að losa um eignarhald ríkisins á þessum tveimur fjármálafyrirtækjum, Íslandsbanka og Landsbanka, yrði tekið. Það yrði mikið pólitískt áfall fyrir mig og örugglega aðra í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þetta er mjög mikilvægt upp á heilbrigði efnahagslífsins í heild sinni.“

Með þessum orðum svarar Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, spurningu blaðamanns um hvort einhverjar líkur séu til þess að hafist verði handa við einkavæðingu Íslandsbanka og Landsbanka sem í dag eru nær alfarið í eigu íslenska ríkisins. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er í engu tilliti vikið að sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum.

Í nýrri sérútgáfu Viðskiptapúlsins, hlaðvarps ViðskiptaMoggans, ræðir Óli Björn um fyrirhugaða sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum. En þar berst talið einnig að tillögum um hinn svokallaða sykurskatt sem landlæknir leggur nú til að verði lagður á sykruð matvæli. Ekki er heldur úr vegi að ræða þá stórundarlegu stöðu sem komin er upp vegna þess sem nýr forstjóri Íslandspósts kallar einfaldlega „tæknilegt gjaldþrot“ fyrirtækisins.

Í umræðunni um einkavæðingu bankanna segir Óli Björn að þeir sem tali gegn slíkum áformum verði að skýra hvernig þeir telji það auka lífsgæði almennings hér á landi að hafa um 400 milljarða króna bundna í eigin fé bankanna. Hann segir mun skynsamlegra að losa um þetta fjármagn og umbreyta því í umbóta- og innviðaverkefni á borð við vegi, skóla, sjúkrahús og önnur aðkallandi uppbyggingarverkefni.

Hlusta má á fimmtánda þátt Viðskipta­púls­ins hér að neðan. Þá má einnig nálg­ast fría áskrift að þátt­un­um í gegn­um helstu podcast-veit­ur fyr­ir iOS-snjall­tæki, á Spotify og Google Play.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK