Bandarískir kaupendur að eignum WOW

Þota WOW air á Keflavíkurflugvelli. Bandarískir flugrekendur eru sagðir hafa …
Þota WOW air á Keflavíkurflugvelli. Bandarískir flugrekendur eru sagðir hafa keypt allar eignir úr þrotabúi WOW air. mbl.is/​Hari

Bandarískir flugrekendur hafa keypt allar eignir úr þrotabúi flugfélagsins WOW-air sem tengjast flugrekstri og greitt með eingreiðslu. Fréttablaðið greinir frá þessu og segir markmiðið að endurvekja lággjalda-flugrekstur á grunni WOW air.

Kaupendurnir eru sagðir alls ótengdir þeim sem áður hefur verið greint frá að séu að undirbúa stofnun lággjaldaflugfélags undir skammstöfuninni WAB. Enginn sem tengist WOW-air er heldur sagður vera í kaupendahópinum sem á að hafa mikla reynslu af flugrekstri víða um heim.

Fullyrt er að viðskiptin hlaupi á hundruð milljónum króna og staðfesti Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra þrotabús WOW air, við Fréttablaðið að uppsett kaupverð hafi verið greitt fyrir eignirnar. Aðrar upplýsingar vildi hann hins vegar ekki veita um kaupin.

Blaðið fullyrðir að meðal þess sem keypt hafi verið séu vöru- og myndmerki WOW-air, netlén WOW, flugrekstrarbækur, bókunarkerfi og annar hugbúnaður, söluvagnar, tölvur, stærstur hluti verkfæra og varahlutalagers fyrirtækisins og meira að segja einkennisfatnaður áhafna og annars starfsfólks.

Hugmyndin sé að „endurvekja lágfargjaldaflugrekstur til og frá landinu bæði til Evrópu og Bandaríkjanna á grunni WOW air og í samræmi við þá hugmyndafræði sem lá til grundvallar lággjaldaflugi WOW air“ að því er segir í fréttinni.

Nöfn fjárfestanna hafa ekki fengist gefin upp, en fullyrt er að þar séu á ferð fjársterkir bandarískir aðilar með mikla reynslu af flugrekstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK