Hlutabréf Twitter á miklu flugi

Hlutabréf Twitter hafa hækkað mikið.
Hlutabréf Twitter hafa hækkað mikið. AFP

Gengi hlutabréfa í samfélagsmiðlinum Twitter hefur verið á miklu flugi það sem af er degi og stendur verðið nú í ríflega 42 Bandaríkjadölum. Alls nemur hækkunin um 10%, en hún kemur í kjölfar uppgjörs fyrirtækisins fyrir annan ársfjórðung.

Hagnaður samfélagsmiðilsins fór talsvert fram úr væntingum sérfræðinga, en fyrirtækið hagnaðist um 1,1 milljarð Bandaríkjadala í ársfjórðungnum. Þá líta greinendur einnig til þess að þrátt fyrir spár um hægari vöxt í tekjum fyrirtækisins á komandi mánuðum hafi nýju viðmóti miðilsins verið afar vel tekið. Slíkt muni til framtíðar reynast dýrmætt.

Tekjur Twitter í ársfjórðungnum námu 841 milljón Bandaríkjadala sem er aðeins meira en ráðgert hafði verið. Ástæðan þar að baki er talin vera sú að við bættust fleiri notendur en búist var við auk þess sem auglýsingatekjur jukust.

Það er ekki óalgengt að miklar verðsveiflur eigi sér stað degi eftir að uppgjör Twitter hefur verið kynnt. Í síðustu sjö af tíu uppgjörum hefur breytingin farið yfir 10% og verður slíkt að teljast afar sjaldgæft. Gengi hlutabréfa í Twitter hefur nú hækkað um 33% frá áramótum og stendur líkt fyrr segir í 42 Bandaríkjadölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK