Hlutabréf Under Armour hrynja í verði

Gengi hlutabréfa í íþróttavöruframleiðandanum Under Armour hrundu í verði í …
Gengi hlutabréfa í íþróttavöruframleiðandanum Under Armour hrundu í verði í morgun.

Gengi hlutabréfa í íþróttavöruframleiðandanum Under Armour hrundu í verði við opnun markaða vestanhafs í morgun. Það sem af er degi hafa bréfin lækkað um ríflega 14% og er það mesta dagslækkun bréfa fyrirtækisins í um tvö ár. 

Hlutabréfin standa nú í um 21 Bandaríkjadal, en lægst fór gengið niður í 20 strax við opnun markaða. Lækkunin kemur í kjölfar uppgjörs íþróttavöruframleiðandans fyrir annan ársfjórðung þessa árs. 

Uppgjörið er talið hafa valdið talsverðum vonbrigðum og munaði þar mestu um minni sölu en ráðgert hafði verið í N-Ameríku. Fyrirtækið gaf þó út í morgun að búist sé við 3-4% tekjuaukningu á heimsvísu á þessu ári. Það nokkurn veginn í samræmi við fyrri spár. 

Under Armour stendur nú í miklum breytingum á rekstri fyrirtækisins. Um áramótin var greint frá því á fjárfestakynningu að fram undan væru breytingar sem miðuðu að því að straumlínulaga reksturinn. Forstjóri Under Armour, Kevin Plank, ítrekaði í tilkynningu vegna uppgjörsins að það gengi samkvæmt áætlun. 

„Við erum mjög einbeitt á framtíðarmarkmið okkar. Það gengur samkvæmt áætlun að staðsetja okkur sem leiðandi í nýsköpun á markaðnum, vinna að áframhaldandi útvíkkun starfseminnar ásamt því að búa til sterk tengsl við viðskiptavini okkar. Við erum á góðum stað varðandi það að ná markmiðum okkar fyrir árið 2019,“ sagði Kevin. 

Þrátt fyrir mikla lækkun í dag hefur gengi hlutabréfa Under Armour hefur verið á mikilli uppleið á þessu ári. Frá áramótum hefur gengið hækkað um 30%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK