Hlutabréfaviðskipti upp á 58 milljarða

Páll Harðarson er forstjóri Kauphallar Íslands.
Páll Harðarson er forstjóri Kauphallar Íslands. Árni Sæberg

Í júlímánuði hækkaði úrvalsvísitala Kauphallar Íslands um 3,0% og hefur hún hækkað um 30,7% það sem af er ári.

Heildarviðskipti með hlutabréf í júlímánuði námu 57,7 milljörðum króna eða 2.507 milljónum á dag að jafnaði. Nemur aukningin 77% frá fyrri mánuði en þá námu viðskipti með hlutabréf 1.463 milljónum á dag. Aukningin frá júlímánuði í fyrra nemur hins vegar 56% þegar viðskiptin námu að meðaltali 1.609 milljónum króna.

Mest viðskipti voru með bréf Arion banka í Kauphöll Íslands …
Mest viðskipti voru með bréf Arion banka í Kauphöll Íslands í júlí. Eggert Jóhannesson

Langmest voru viðskipti með bréf Arion banka. Námu þau 30,3 milljörðum króna. Næstmest voru viðskiptin með bréf Marel eða 5 milljarðar, þá komu bréf Símans með 4,2 milljarða veltu, Hagar með 2,7 milljarða og Icelandair Group með 2,3 milljarða.

Á aðalmarkaði voru Fossar markaðir með mestu hlutdeildina, 54,9% (22,4% á árinu), Íslandsbanki með 12,8% (18,1% á árinu) og Arion banki með 10,4% (20,7% á árinu).

Samkvæmt tilkynningu frá Kauphöll Íslands voru 23 félög skráð á aðal- og First North-markaðina á Íslandi. Nemur heildarvirði skráðra félaga 1.196 milljörðum króna samanborið við 1.172 milljarða í lok júnímánaðar.

Skuldabréfaveltan minni en í júní

Í júlímánuði námu heildarviðskipti með skuldabréf 69,7 milljörðum króna sem samsvarar 3,0 milljarða veltu á dag. Viðskiptin eru 41% minni en í júní þegar þau voru að meðaltali 5,1 milljarður á dag. Þá nemur lækkunin 3,82% miðað við júlímánuð í fyrra en þá voru þau 3,15 milljarðar á dag að jafnaði.

Alls námu viðskipti með ríkisskuldabréf 48,7 milljörðum og viðskipti með bankabréf námu 13,5 milljörðum. Viðskipti með íbúðabréf námu 3,2 milljörðum króna.

Á skuldabréfamarkaði var Kvika umsvifamest með hlutdeildina 23,3% (19,2% á árinu). Íslandsbanki var með 21,5% viðskiptanna (18,9% á árinu) og Arion banki með 16,8% (18,2% á árinu).

Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 0,8% í júlí (9,2% á árinu) og stendur í 1.588,8 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 0,44% (11% á árinu) og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 0,8% (7,7% á árinu).

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK