Sannkölluð rússíbanareið hjá Lyft

Hægt er að panta bifreið hjá Lyft með snjallsímanum.
Hægt er að panta bifreið hjá Lyft með snjallsímanum. AFP

Það er óhætt að segja að gengi hlutabréfa leigubílaþjónustunnar Lyft hafi sveiflast svo um munar eftir birtingu uppgjörs fyrirtækisins fyrir annan ársfjórðung þessa árs í gærkvöldi. Fram kom í uppgjörinu að tekjur í ársfjórðungnum hefðu farið fram úr væntingum fjárfesta sem varð til þess að bréfin hækkuðu um ríflega 11% strax eftir lokun markaða. 

Sú hækkun varði þó ekki lengi, en skömmu eftir framangreindar fregnir tilkynnti fyrirtækið að innanbúðarfólk gæti nú selt hlutabréf sín í skutlþjónustunni fyrr en áður hafði verið talið. Strax eftir þessar fregnir hægðist allverulega á hækkuninni og bréfin tóku að lækka verði. 

Verðsveiflunum var þó ekki lokið þarna og tóku bréfin að hækka að nýju þegar stjórnendur Lyft greindu frá því að hægst hefði á verðstríði fyrirtækisins við samkeppnisaðila þess, Uber. Þá var einnig greint frá því að tap þessa árs yrði talsvert minna en í fyrra. 

Það sem af er degi hefur gengi hlutabréfa Lyft hækkað um 6,13% og stendur nú í 63 Bandaríkjadölum. Heildartekjur fyrirtækisins í ársfjórðungnum voru 867,3 milljónir Bandaríkjadala, sem er 72% hækkun frá sama tímabili í fyrra og um leið nýtt met hjá Lyft. 

Við uppgjörið hækkuðu hlutabréf samkeppnisaðilans, Uber, einnig talsvert í verði og nemur hækkunin það sem af er degi rétt um 6,7%. Gengið stendur nú í 42,4 Bandaríkjadölum. Bæði hafa fyrirtækin átt í vandræðum með að halda sig nálægt útboðsgengi sínu, en nýjustu fréttir benda þó til þess að hugsanlega fari eitthvað birta til í þeim efnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK