Eimskip fær að áfrýja

Áfrýjunarleyfið er veitt þar sem Hæstiréttur telur að dómur í …
Áfrýjunarleyfið er veitt þar sem Hæstiréttur telur að dómur í málinu myndi hafa fordæmisgildi. Hér má sjá skjaldarmerki Íslands í dómsal Hæstaréttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur veitt Eimskip leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar sem féll í júní, en Landsréttur hafnaði því að ógilda 50 millj­óna króna stjórn­valds­sekt sem Fjár­mála­eft­ir­litið veitti Eim­skip­um fyr­ir að hafa ekki birt nægi­lega fljótt inn­herja­upp­lýs­ing­ar.

Málið snýst um kröfur Eimskips um að ákvörðun FME frá 8. mars 2017 verði ógilt eða felld niður, en í ákvörðuninni var byggt á því að félagið hefði brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti með því að hafa látið hjá líða að birta afkomutilkynningu á tilsettum tíma.

Þá krefst Eimskip endurgreiðslu eða lækkunar 50 milljóna kr. sektar sem lögð var á félagið með ákvörðuninni.

Fram kemur á vef Hæstaréttar, að ágreiningur snúi í meginatriðum að því hvort birtingarskyldar upplýsingar um bætta afkomu Eimskips á fyrsta ársfjórðungi 2016 hafi orðið til fyrir birtingu árshlutareiknings 26. maí 2016.

Með fyrrnefndum dómi staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu FME með vísan til þess að upplýsingar sem hafi gefið tilefni til afkomutilkynningar hafi legið fyrir 20. maí 2016 þegar fyrstu drög að árshlutauppgjöri höfðu verið gerð og hafi því ákvörðun Fjármálaeftirlitsins ekki verið haldin annmörkum sem leitt gætu til ógildingar hennar.

Hæstiréttur veitir leyfi til áfrýjunar á þeim grundvelli að dómur í máli þessu myndi hafa fordæmisgildi. Eimskip heldur því m.a. fram, að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi á sviði verðbréfaviðskipta en í því reyni á skýringu hugtaksins innherjaupplýsingar í skilningi 1. mgr. 120. gr. laga nr. 108/2007 og hvenær upplýsingaskylda samkvæmt 1. mgr. 122. gr. sömu laga verði virk.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK