Smálánaskuldir aftur skráðar hjá Creditinfo

Ondřej Šmakal forstjóri eCommerce 2020
Ondřej Šmakal forstjóri eCommerce 2020 Ljósmynd/Aðsend

Smálánafyrirtækið eCommerce 2020, sem rekur meðal annars Hraðpeninga og Smálán, hefur náð samkomulagi við Creditinfo um að endurskrá lán sem Creditinfo hafði áður hafnað að setja á vanskilaskrá. Heildarkostnaður lánanna var vel umfram lögbundið hámark kostnaðar samkvæmt lögum.

Í kjölfar umræðu um lánin í vor og sumar hafnaði Creditinfo að setja lán fyrirtækisins á vanskilaskrá, enda væri deilt um lögmæti lánanna. Með samkomulagi fyrirtækjanna núna verða lán sem eru frá 13. maí á þessu ári eða eldri skráð á vanskilaskrá Creditinfo, en aðeins verður um höfuðstól lánsins að ræða.

Almennt eru bæði höfuðstóll og vextir skuldar skráðir á vanskilaskrá, en samkvæmt tilkynningu eCommerce verða lán þeirra sem gætu flokkast sem umdeild lán og voru tekin fyrir 13. maí aðeins skráð á vanskilaskrá út frá höfuðstól lánsins. Hins vegar verða nýrri lán, sem tekin voru eftir að fyrirtækið breytti vöxtum sínum þannig að þeir eru innan laga um neytendalán um árlega hlutfallstölu kostnaðar skráð með bæði höfuðstól og vöxtum. 

mbl.is hafði samband við Creditinfo til að fá staðfest að gert hefði verið samkomulag við eCommerce varðandi að skrá lán fyrirtækisins á ný. Sigríður Laufey Jónsdóttir, lögfræðingur Creditinfo, sagði að félagið gæti ekki tjáð sig um málefni einstakra viðskiptavina, en að ef skráningaraðilar (líkt og eCommerce) uppfylltu kröfur laganna þá giltu almennar reglur um skráningu. Meðal þess sem þarf að uppfylla fyrir skráningu á vanskilaskrá er að krafa nemi að lágmarki 50 þúsund krónum og hafi verið í vanskilum í að minnsta kosti 40 daga.

Í fyrradag var greint frá því að stjórn VR hefði samþykkt tillögu Ragnars Þór Ingólfssonar, formanns VR, um að félagið yrði bakhjarl Neytendasamtakanna í baráttu gegn smálánafyrirtækjum og myndi greiða fyrir lögmannskostnað þeirra sem færu með skuldamál fyrir dómstóla.

Í tilkynningu frá eCommerce segir að félagið hafi frá því í júlí ekki innheimt hærri vexti en íslensk lög leyfa og er haft eftir Ondřej Šmakal, forstjóra eCommerce 2020, að skráning Creditinfo sé ákveðin traustyfirlýsing um að lán félagsins séu lögmæt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK