Skipulagsbreytingar hjá Högum

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is/Árni Sæberg

Breytingar voru samþykktar á skipulagi Haga á stjórnarfundi sem fór fram í dag. Markmið breytinganna er að einfalda skipulag og gera boðleiðir og ábyrgð skýrari. Einnig að nýta styrk heildarinnar og ná fram auknu hagræði. Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar, að starfsemi vöruhúsa verði færð undir einn hatt, þar með talin vöruhúsastarfsemi Olís.

Tekið er fram, að markvisst sé unnið að aukinni samhæfingu hjá fyrirtækinu í heild í kjölfar kaupa Haga á Olíuverzlun Íslands, þannig að stærðarhagkvæmni nýtist á sem flestum sviðum og að félagið geti þjónað viðskiptavinum sínum á besta mögulegan hátt.

Starfsemi vöruhúsa færð undir einn hatt

„Með þessum skipulagsbreytingum er starfsemi vöruhúsa færð undir einn hatt, þar með talin vöruhúsastarfsemi Olís. Með breytingunum fæst umtalsvert hagræði. Í þessum skipulagsbreytingum eru stoðsvið vöruhúsa sameinuð auk stoðsviða sérverslana og Olís. Þá mun Olís leggja áherslu á breiðari þjónustu við fyrirtækjamarkað.“

Enn fremur segir, að Hagar hafi skilað fullmótuðum tillögum til Reykjavíkurborgar í samræmi við stefnu borgarinnar um fækkun bensínstöðva. Tillögurnar geri ráð fyrir verslunarhúsnæði, íbúðarhúsnæði og bensíndælum á þeim lóðum sem félagið hafi sett í forgang. Unnið er að stefnumótun um verslanir Olís.

Fimm meginstoðir Haga

Þá segir, að í kjölfar breytinganna verði fimm meginstoðir innan Haga, en þær eru Bónus, Olís, Vöruhús, Bananar og sérverslanir. Skipulagsbreytingarnar muni raungerast á næstu vikum. Guðmundur Marteinsson er framkvæmdastjóri Bónuss, Jón Ólafur Halldórsson er framkvæmdastjóri Olís, Kjartan Már Friðsteinsson er framkvæmdastjóri Banana og Lárus Óskarsson er framkvæmdastjóri Vöruhúsa. Innan Vöruhúsa verða Aðföng, Hýsing og Ferskar kjötvörur. Sigurður Reynaldsson verður framkvæmdastjóri sérverslana.

Innan sérverslana verða Hagkaup, Útilíf, Zara og Reykjavíkur-Apótek, en kaup Reykjavíkur-Apóteks eru enn með fyrirvara og til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Loks segir, að á aðalskrifstofu félagsins verði Steingrímur H. Pétursson, framkvæmdastjóri fjármála og viðskiptaþróunar. Guðrún Eva Gunnarsdóttir verður framkvæmdastjóri samstæðu og rekstrar. Þá er gert ráð fyrir ráðningu í tvær nýjar stöður. Annars vegar í stöðu leiðtoga upplýsingatækni og stafrænnar þjónustu og hins vegar í stöðu samskiptastjóra. Forstjóri er Finnur Árnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK