Fasteignir hækka í verði

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli júní og júlí. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,2% og verð á sérbýli hækkaði um 1,1%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,1% og verð á sérbýli um 2,1%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 2,9%, sem er 0,3 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði, samkvæmt vefriti hagdeildar Landsbankans.

Árshækkun íbúðarhúsnæðis hefur ekki verið lægri síðan í apríl 2011. Í júlí í fyrra var árshækkunin 5,2% og 19% í júlí 2017. Markaðurinn er því orðinn mjög rólegur í sögulegu samhengi.

„Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,4% milli mánaða í júlí og 2,8% á einu ári, eða nokkuð minna en fasteignaverð á sömu 12 mánuðum. Raunverð fasteigna hækkaði því lítillega milli mánaða, sérstaklega raunverð sérbýlis. Horft yfir lengra tímabil hefur hófleg hækkun fasteignaverðs síðustu mánuði náð að halda nokkurn veginn í við þróun verðbólgunnar án húsnæðiskostnaðar. Því hefur raunverð íbúðarhúsnæðis verið nokkuð stöðugt. Raunverð fór hæst í október 2007 fyrir hrun en lækkaði svo mikið. Það náði aftur sama stigi í apríl 2017 og hefur síðan hækkað um tæp 10%.

Árshækkun raunverðs er orðin hóflegri en áður. Þannig var raunverð fasteigna nú í júlí um 0,1% hærra en í júní 2018. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin tvö þar á undan. Samsvarandi tölur voru 3,7% fyrir júní 2018 og 22,8% fyrir júní 2017.

Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í júlí voru þau mestu frá því í janúar. Fjöldi viðskipta fyrstu sjö mánuði ársins 2019 var um 4% minni og á sama tíma fyrir ári og fjöldi viðskipta í júlí í ár var um 5% lægri en í júlí 2018. Fasteignamarkaðurinn hefur því gefið töluvert eftir hvað fjölda viðskipta varðar. Meðalfjöldi viðskipta á fyrstu sjö mánuðum ársins er hins vegar um 6% minni en var á öllu árinu 2018.

Gott sumar hefur ekki farið vel í fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Verð er mjög stöðugt og viðskipti með minnsta móti. Hagfræðideild var á sínum tíma á því að aukið framboð nýrra íbúða, sem að jafnaði eru með hærra fermetraverð, myndi leiða áframhaldandi verðhækkanir á markaðnum. Svo virðist ekki vera, frekar má segja að aukið framboð íbúða haldi aftur af verðhækkunum.

Mikil óvissa í efnahagslífinu dró eflaust úr fasteignaviðskiptum fyrstu mánuði ársins. Þar má bæði nefna óvissu vegna kjarasamninga og áfallið sem hagkerfið varð fyrir í kjölfar gjaldþrots WOW air,“ segir í hagsjá hagdeildar Landsbankans.

Uppfært: Talað var um í upphafi fréttarinnar að fasteignaverð hefði lækkað, en hið rétta er að það hefur hækkað. Leiðréttist þetta hér með.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK