Sem flestir starfsmenn verði íslenskir

Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates og tilvonandi stjórnarformaður WOW …
Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates og tilvonandi stjórnarformaður WOW AIR LLC. mbl.is/Árni Sæberg

„500 starfsmenn, 700 starfsmenn, hvað sem það verður, þá verða eins margir þeirra Íslendingar og mögulegt er, því hin einstaka upplifun af hinum íslenska persónuleika er svo ofurmikilvæg. Mannlífið hér er ótrúlegt og þið fólkið eruð besta náttúruauðlind ykkar,“ segir Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates LLC og tilvonandi stjórnarformaður WOW AIR LCC, í samtali við mbl.is, spurð hve margir Íslendingar muni geta sóst eftir að starfa fyrir nýtt flugfélag sem bera mun sama nafn og WOW air sem varð gjaldþrota á þessu ári.

Edwards kýs að kalla hið nýja flugfélag WOW 2 til aðgreiningar, en hún segir að þar sem færri flugvélar verði í rekstri félagsins verði starfsmenn líklega færri.

„Ég hef heyrt mismunandi tölur um starfsmannafjölda hjá WOW 1, en ég held að hann hafi mestur orðið 1.500 starfsmenn. Þegar maður rekur 22-23 flugvélar er mikið starfsmannahald, bæði í flugvélunum sjálfum og á jörðu niðri við viðhald o.fl.,“ segir hún.

Með sjálfbærni og arðbærni í huga

„Við viljum halda úti 10-12 flugvélum af því við trúum því að það sé besta viðskiptamódelið. Það yrði sjálfbært og arðbært og þannig héldum við flugvélunum á lofti og starfsfólk gæti verið öruggt með störf sín,“ segir Roosevelt Edwards. 

Á blaðamannafundi í dag í tilefni endurreisnar WOW air lýsti Roosevelt Edwards yfir miklu dálæti á Íslandi og íslensku þjóðinni. Hún segir þetta eina ástæðu þess að hún vilji hafa íslenskt starfsfólk hjá flugfélaginu.

„Þessi persónuleiki og yfirbragð víkinga sem þið berið með ykkur er það sem ég dáðist að í upphafi og varð kveikjan að hugmyndinni að endurreisn WOW air. Það að farþegar gætu notið þessa eins og ég væri frábært,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK