Tvíþætt markmið að baki kaupunum á Basko

Skeljungur hf. er að taka skref inn á smásölumarkaðinn með …
Skeljungur hf. er að taka skref inn á smásölumarkaðinn með kaupunum á Basko ehf. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Kaup Skeljungs hf. á öllu hlutafé í Basko ehf. þjóna tvíþættum tilgangi segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, í samtali við mbl.is. Árni átti persónulega og í gegnum félag sitt Station ehf. um 11% hlut í Basko fyrir kaupin en segist ekki hafa haft neinn fjárhagslegan ávinning af viðskiptunum.

Í vikunni var skrifað undir kaupsamning vegna kaupa Skeljungs á öllu hlutafé í Basko og voru kaupin gerð með nokkrum fyrirvörum, m.a. um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Kaupverðið nam 30 milljónum króna auk þess sem Skeljungur yfirtók vaxtaberandi skuldir sem nema 300 milljónum króna.

Basko á fimm 10-11-versl­an­ir og rek­ur fjór­tán versl­an­ir und­ir merkj­um Kvikk sem eru rekn­ar við bens­ín­stöðvar Skelj­ungs. Þá á Basko veit­ingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill og versl­un­ina Kvos­ina, auk mat­vöru­versl­ana í Reykja­nes­bæ og á Ak­ur­eyri. Und­an­skilinn í kaup­un­um er 50% eign­ar­hlut­ur Basko í Eld­um rétt ehf. Basko er í meiri­hluta­eigu Horns III slhf. fram­taks­sjóðs.

Koma sér inn á smásölumarkaðinn

Spurður til hvers Skeljungur horfi og hvað félagið sjái í Basko sem gerir kaupin á félaginu góðan fjárfestingarkost segir Árni að svarið sé í raun tvíþætt:

„Í fyrsta lagi eru þarna inni þær verslanir sem eru við bensínstöðvarnar okkar og eru þar af leiðandi okkur mjög mikilvægar. Í öðru lagi höfum við gefið það út að við ætlum að skoða okkur aðeins um í smásölunni og þetta er að okkar mati ágætis skref til að byrja með til að koma okkur fyrir þar.“

Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs.
Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs. Mynd/mbl.is

Með kaupunum er Skeljungur því að koma sér fyrir á smásölumarkaðnum á Íslandi en fyrir á félagið 34% hlut í netversluninni Heimkaupum. Hluthafar Heimkaupa eru að skoða hlutafjáraukningu í félaginu og segir Árni að Skeljungur sé þátttakandi í þeim viðræðum.

Spurður hvort litið sé á Heimkaup sem stóran hluta í þeim fyrirætlunum Skeljungs að koma sér inn á smásölumarkaðinn svarar Árni neitandi:

„Ég myndi nú ekki segja að við sæjum Heimkaup fyrir okkur sem stóran part í því en hins vegar höfum við haldið því opnu að það gæti verið púsl sem passar inn í myndina þegar fram sækir.“

Virði Basko hríðféll á nokkrum árum

Árið 2016 keypti fjárfestingarsjóðurinn Horn III 80% hlut í Basko á rúmlega 1,5 milljarða króna en á þeim tíma var Árni bæði forstjóri Basko og eigandi. Eftir kaupin var Árni næststærsti hluthafi félagsins og hélt starfi sínu sem forstjóri.

Ári síðar áttu sér stað samningaviðræður milli Skeljungs og hluthafa
Basko um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Basko. Í tilkynningu sem var send út á þeim tíma var miðað við að kaupverðið gæti náð allt að 2,2 milljörðum króna. Ekkert varð úr því þar sem fyrirvarar sem settir voru fyrir viðskiptunum gengu ekki eftir.

Féll frá kröfu um greiðslu

Árni átti því að eigin sögn um 11% hlut í Basko þegar gengið var frá kaupsamningnum við Skeljung í vikunni. Spurður um tengslin segir Árni að í undirbúningi kaupanna hafi allir verið meðvitaðir um stöðu hans. Hann tekur fram að efni kaupsamningsins sé trúnaðarmál en hann hafi persónulega og fyrir hönd félags síns fallið frá kröfu um greiðslu.

„Menn voru meðvitaðir um stöðu mína í þessum viðræðum og við hegðuðum okkur samkvæmt því. Ég tók ekki þátt í undirbúningi viðskiptanna og vék af fundum. Það var gengið þannig frá hlutunum að hvorki ég né félagið mitt hafði nokkurn fjárhagslegan ávinning af sölunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK