Vilja fylgja leikmönnum alla leið

Bjarki Gunnlaugsson, umboðsmaður Stellar Group.
Bjarki Gunnlaugsson, umboðsmaður Stellar Group. mbl.is/Árni Sæberg

Samningur knattspyrnuumboðsmannanna Bjarka Gunnlaugssonar og Magnúsar Agnars Magnússonar við Stellar Group, stærstu umboðsmannaskrifstofu í heimi á sviði íþróttanna, felur í sér umfangsmeira tengslanet og meira aðgengi að upplýsingum og er þar af leiðandi traustvekjandi fyrir íslenska knattspyrnumenn sem vilja freista þess að spreyta sig á erlendri grundu að sögn Bjarka.

Þegar blaðamann bar að garði á Skólavörðustíg 14 var fyrsti maður til að heilsa honum Baldur Kristjánsson ljósmyndari, sem hefur deilt rými með umboðsmannaskrifstofunni Total Football undanfarin ár. Í hornherberginu á þessu sameiginlega rými situr Bjarki Gunnlaugsson við tölvuna með kveikt á Sky Sports fyrir framan sig, en skrifstofan skartar ýmsum djásnum á borð við gull- og silfurskó auk stórrar freyðivínsflösku með áletruninni „Man of the Match“ og merki ensku úrvalsdeildarinnar prentuðu á. Á bak við hann er tafla þar sem hernaðarleyndarmálin eru teiknuð upp, en þeir Bjarki, Magnús Agnar Magnússon og Arnór Guðjohnsen stofnuðu umboðsmannaskrifstofuna árið 2011. Nú hafa þeir Bjarki og Magnús Agnar ákveðið að söðla um, en þeir gengu í síðustu viku til liðs Stellar Group, stærstu umboðsmannaskrifstofu í heimi á vettvangi íþrótta, sem hefur leikmenn á borð við Gylfa Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Gareth Bale, leikmann Real Madrid, á sínum snærum,

Aukið aðgengi að upplýsingum

Þeir Bjarki og Magnús munu leiða Norðurlandadeild skrifstofunnar, sem mun bera heitið Stellar Nordic, en viðræður við Stellar Group hafa átt sér stað í nokkurn tíma. Að sögn Bjarka má lýsa umboðsmennsku sem þjónustustarfi, þjónustu við leikmenn, þar sem aðgengi að upplýsingum er auðvitað gríðarlega mikilvægt.

„Og það stækkar gríðarlega við þessa breytingu. Tengslanetið stækkar og leikmenn ættu nú að geta treyst því að þeir séu alltaf að fá bestu samningana sem völ er á í hvaða landi sem er,“ segir Bjarki. Þeir félagar hafa um 40 leikmenn á sínum snærum sem spila erlendis en inni í þeirri tölu eru bæði yngri leikmenn, frá 16-19 ára, og eldri leikmenn.

„Okkur langar til þess að fylgja þessum strákum alla leið. Ekki að byrja með þeim ungum og taka skref A og B en sleppa skrefi C þegar þeir eru komnir á hærra stig. Þá verður áreitið við þá meira og menn hvísla að þeim alls konar gylliboðum sem eru ekkert endilega sönn og rétt. Nú ættum við að geta tryggt að við séum nógu stórir til þess að fara með þá alla leið. Maður vill að leikmenn taki ákvarðanir út frá bestu mögulegu upplýsingum og með þessari breytingu ætti ekki í raun að vera hægt að segja að við séum ekki nógu stórir,“ segir Bjarki.

„Stellar Group hefur verið til í töluverðan tíma. Jonathan Barnett, David Lockwood og David Manasseh eru heilarnir á bak við þetta. Þeir hafa tugi starfsmanna og þetta er í raun allt annað vinnuumhverfi,“ segir Bjarki og nefnir stærðarhagkvæmnina sem fylgir því að vera hluti af Stellar Group og hvernig umboðsmenn samstæðunnar hjálpast til við að fylgjast með leikmönnum annarra umboðsmanna innan hennar. „Það er líka stór ástæða fyrir því að við tókum skrefið að semja við Stellar Group fremur en aðra. Þar eru allir saman í þessu frekar en að vinna hver í sínu horni,“ segir Bjarki.

Eins og fyrr segir munu þeir Bjarki og Magnús reka Norðurlandadeild Stellar Group og í því felast möguleg vaxtartækifæri.

„Hugmyndin er að vera sýnilegri með Stellar sem vörumerki. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við reynum líka að ná til bestu leikmannanna í Danmörku og Svíþjóð, þó að í grunninn séum við að færa okkur til fyrir íslensku leikmennina. Við viljum alltaf standa okkur gagnvart þeim. En til framtíðar sjáum við tækifæri í því, ásamt Stellar Group, að vera með viðveru í þessum löndum þannig að þegar eitthvað kemur upp; áhugaverður leikmaður eða eitthvað slíkt, verði auðveldara fyrir okkur að taka þann slag við aðrar umboðsskrifstofur. Það hefði verið erfitt að gera það sem Total Football. En hugsunin er ekki sú að hrúga inn sænskum eða dönskum leikmönnum heldur að velja úr og eiga möguleika á að vera með í leiknum sem Stellar. Á móti eru einnig leikmenn Stellar hjá stóru liðunum í Englandi sem ná ekki í gegn þar en gætu fundið sig betur á lægra stigi eins og Skandinavíu eða jafnvel á Íslandi,“ segir Bjarki.

„Þetta er gríðarlega mikið tækifæri fyrir okkur. Ef ég væri leikmaður væri þetta eins og að semja við Real Madrid. En þetta eru einnig gleðifréttir fyrir íslenskan fótbolta. Markmiðið er að fjölga leikmönnum í stærri deildum. Næsta kynslóð er sú sem við leggjum mesta áherslu á. Stærstur hluti starfsins hjá okkur er að finna næsta Eið Smára Guðjohnsen og næsta Gylfa Þór Sigurðsson án þess þó að vanmeta hversu flottan feril leikmaður eins og t.d. Kári Árnason átti sem spilaði erlendis um árabil. Við erum ekki síður að leita að slíkum leikmanni. En leiðin fyrir leikmenn er aftur á móti alltaf sú sama. Að fara út í akademíufótbolta eða sem leikmaður í gegnum meistaraflokk hér á landi til Skandinavíu eða í minni deildirnar á meginlandinu og þar áfram,“ segir Bjarki.

Viðtalið við Bjarka má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK