Skuldabréfaeigendur Upphafs samþykktu breytta skilmála

Höfuðstöðvar GAMMA við Garðastræti í Reykjavík.
Höfuðstöðvar GAMMA við Garðastræti í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Skuldabréfaeigendur fasteignafélagsins Upphafs samþykktu skilmálabreytingar á skuldum félagsins á fundi í dag, en breytingar voru nauðsynlegar til að ljúka viðbótarfjármögnun með nýju skuldabréfi að fjárhæð eins milljarðs króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GAMMA.

„Fyrir fundinn hafði fjárfestum verið kynnt áætlun nýs stjórnendateymi GAMMA um að tryggja framgang framkvæmda á vegum fasteignafélagsins Upphafs, sem er að fullu í eigu fagfjárfestasjóðsins Novus sem er í stýringu hjá GAMMA. Upphaf er nú á hápunkti framkvæmda með 277 íbúðir í byggingu og eru áætluð lok allra framkvæmda í lok árs 2020. Áætlunin miðar að því að tryggja tekjur af sölu íbúða og hámarka virði eigna. Til þess að áætlunin gangi eftir er unnið með fjárfestum að því að klára skilmála hins nýja skuldabréfs,“ segir í tilkynningunni.

Fjallað var um skilmálabreytinguna í Morgunblaðinu síðasta föstudag, en hún felur meðal annars í sér að gjald­daga höfuðstóls­ins verði frestað um eitt ár til 30. maí 2022 og að fastir vextir verði lækkaðir um­tals­vert, eða úr 15-16,5% niður í 6%.

Máni Atlason, framkvæmdastjóri GAMMA, segir samþykki kröfuhafa félagsins mikilvægt skref í átt að viðbótarfjármögnun sem tryggir framgang verkefna og hámörkun eigna, eins og nýtt stjórnendateymi GAMMA hafi lagt áherslu á.

„Við munum áfram kappkosta að reka smiðshöggið á endurskipulagningu félagsins sem fyrst og við munum áfram leggja áherslu á að komast til botns í því hvað fór úrskeiðis og upplýsa haghafa um það,“ er haft eftir Mána í tilkynningu.

Óháðir sérfræðingar ráðnir til að fara yfir málið

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum frá því í upphafi mánaðar hefur nýtt stjórnendateymi GAMMA unnið að því að endurmeta stöðu Upphafs og fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus frá því í júlí. Í ljós kom að eigið fé Upphafs hafði verið ofmetið og kostnaður vanmetinn.

Í tilkynningu GAMMA segir að stjórn félagsins líti þá stöðu sem kom upp við endurmatið „mjög alvarlegum augum“ og að stjórnin hafi ráðið endurskoðendafyrirtækið Grant Thornton til þess að „fara yfir málefni Novus og Upphafs“.

„Á grundvelli niðurstöðu úttektar þeirra verður lagt mat á hvaða frekari aðgerða verður gripið til að upplýsa um málið. Jafnframt munu stjórnendur vinna með haghöfum að frekari upplýsingaöflun og verður fundur eigenda sjóðsins boðaður innan skamms,“ segir í tilkynningu GAMMA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK