Áætlun WOW air frestast

Michele Ballarin.
Michele Ballarin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áætlunum WOW air um að hefja flugferðir að nýju í þessum mánuði hefur verið frestað þangað til í desember. Þetta hefur vefurinn Flightglobal eftir eiganda WOW, Michele Ballarin. Vísir greindi fyrst frá þessu í gærkvöldi.

Yfirlýsing Michele Ballarin, stjórnarformanns USAerospace Associates, þar að lútandi var gefin út í gær en þar eru ekki gefnar neinar nánari skýringar um áætlanir félagsins, það er hvert og hvenær verður flogið og hvaðan. Fram kemur í frétt Flightglobal að USAerospace, sem keypti eignir WOW, hafi ekki svarað neinum tölvupóstum vefjarins.

USAerospace greindi frá því í síðasta mánuði að félagið myndi hefja áætlunarflug WOW að nýju í október.

Í tilkynningunni nú kemur fram að WOW air verði komið í fulla starfsemi í desember og miðasala hefjist í nóvember. Miklar breytingar hafi átt sér stað í flugrekstri að undanförnu og WOW air muni nýta sér þær til þess að leigja flugvélar sem ekki var hægt að leigja fyrr í sumar. 

Undanfarnar vikur hafa nokkur lágfargjaldaflugfélög eins og Thomas CookXL Airways og Adria Airways hætt starfsemi. 

Ekki hefur verið upplýst nákvæmlega hvað felst í samkomulagi um kaup á eignum WOW air en Ballarin hefur staðfest að félag hennar setji 85 milljónir Bandaríkjadala í að koma WOW air í loftið að nýju. Fyrst verði félagið með tvær flugvélar í rekstri.

Talskona Metropolitan Washington Airports Authority (MWAA), sem rekur Dulles-flugvöll í Washington, sagði við blaðamann FlightGlobal í gær að forsvarsmenn MWAA hafi átt fund með nýjum eigendum WOW í ágúst. Ekkert hafi síðan heyrst frá flugfélaginu síðan og því sé ekki hægt að gefa neinar upplýsingar um fyrirhugaðar áætlanir WOW um að fljúga um flugvöllinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK