Fjölmargar breytingar í jafnréttisátt

Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, og Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, og Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefnt er að því að fjölga konum í stétt flugvirkja og karla í stétt flugþjóna. Fjölga konum sem eru flugmenn hjá Icelandair og tryggja jöfn kynjahlutföll í stjórnendastöðum. Áherslubreytingar verða gerðar á mörgum sviðum, þar á meðal verða endurskoðuð viðmið um förðun, hár og skófatnað hjá flugfreyjum og flugþjónum.

Icelandair tekur í dag þátt í undirritun áskorunar í jafnréttismálum á vegum IATA, alþjóðasamtaka flugrekenda, á alþjóðlegri ráðstefnu IATA í Berlín. Alls skrifa 25 flugfélög undir áskorunina og setja fram markmið sín í jafnréttismálum. Á sama tíma setur Icelandair þessi sömu markmið fram á Heimsþingi kvenleiðtoga sem stendur nú yfir í Hörpu en Icelandair er einn af bakhjörlum Heimsþingsins sem vinnur að því að efla jafnrétti í heiminum.

Ásdís Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og samfélagsábyrgðar hjá Icelandair og Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, segja að unnið hafi verið að stefnu félagsins í samfélagsábyrgð undanfarna mánuði. Í þeirri vinnu var haft samráð um áherslur stefnunnar meðal annars við starfsfólk og viðskiptavini.

„Jafnréttismál voru það sem mjög margir settu þar fram. Þá er það staðreynd að litið er á okkur Íslendinga sem fyrirmynd í þessum málum alþjóðlega. Þar sem Icelandair ber nafn landsins okkar er mikilvægt að við sem fyrirtæki getum staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til Íslands á sviði jafnréttismála,“ segir Ásdís. 

Flugfreyjur á Keflavíkurflugvelli.
Flugfreyjur á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

„Aukin áhersla á samfélagsábyrgð er mikilvægur þáttur í nýrri stefnu félagsins sem unnið hefur verið að undanfarið eitt og hálft ár og var kynnt í vor. Við höfum valið okkur fjögur heimsmarkmið til grundvallar stefnunni og jafnrétti kynjanna er eitt þeirra. Framundan er vinna að mótun aðgerða í þessum málum í samstarfi við starfsfólkið okkar,“ segir Elísabet við blaðamann mbl.is á ráðstefnunni í Hörpu.

Ásdís segir að auk jafnréttis kynjanna, sem er fimmta í röð 17 heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, verður lögð áhersla á góða atvinnu og hagvöxt (markmið 8), ábyrga neyslu og framleiðslu (markmið 12) og aðgerðir í loftslagsmálum (markmið 13).

Þær segja að Icelandair hafi unnið mikið að jafnréttismálum að undanförnu og í byrjun árs fékk félagið jafnlaunavottun og er eitt stærsta einkafyrirtækið sem hlýtur slíka vottun. „Við erum með jafnréttisáætlun sem er virk og við höfum hana að leiðarljósi í öllu því sem við gerum. Hennar hlutverk er fyrst og fremst að öllum kynjum bjóðist jöfn tækifæri,“ segir Elísabet.

Markmiðin sem Icelandair hefur sett sér að hafa náð árið 2025 er að tryggja jafnt kynjahlutfall meðal stjórnenda félagsins. Árið 2008 var engin kona í stjórn félagsins og eingöngu karlar í framkvæmdastjórn. Í dag er kynjahlutfallið í stjórn félagsins 40% konur og 60% karlar og í framkvæmdastjórn 33% konur og 67% karlar. Þá er kynjahlutfall meðal annarra stjórnenda en þeirra sem sitja í framkvæmdastjórn jafnt. 

Alþingi samþykkti árið 2010 lög sem gera meðal annars ráð fyrir því að í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn skuli hlutfall hvors kyns í stjórninni vera að minnsta kosti 40% í lok árs 2013. 

Þá höfum við sett okkur markmið um að fjölga stöðugildum kvenflugmanna um 25% en í dag er hlutfall kvenflugmanna 12% en var 6,5% fyrir áratug, segir Ásdís.

Kynna flugvirkjanám fyrir konum

Jafnframt höfum við áhuga á að fjölga konum í starfi flugvirkja en þar er yfirgnæfandi meirihluti karlar, eða yfir 99%. Það ætlum við að gera með því að kynna starfið og nám í flugvirkjum fyrir stúlkum því starfið er áhugaverður kostur fyrir bæði kynin líkt og önnur iðn- og tæknistörf. Ásdís segir að Icelandair hafi áhuga á að fara þar í samstarf við skóla en flugvirkjanámið er kennt í Tækniskólanum í dag.

Hún segir að Icelandair hafi náð ágætum árangri í að kynna starf flugmanna fyrir báðum kynjum og vonast hún til þess að svo verði einnig varðandi nám í flugvirkjum.

Við viljum sýna að hjá Icelandair eigi allir sömu tækifæri, segja þær. Þetta snýst fyrst og fremst um að vera með blönduð teymi, að taka stórar ákvarðanir með fjölbreyttum hóp því þannig teljum við að við náum bestum árangri, segir Elísabet. Þá finnum við að viðskiptavinir okkar horfa til þess að við séum að spegla samfélagið eins og það er og við viljum mæta þeim kröfum og væntingum sem eru gerðar til okkar, segja þær Ásdís og Elísabet.  

Elísabet segir að endurskoða eigi viðmið um ýmis atriði sem tengjasat einkennisfatnaði áhafna, þar á meðal skófatnað, förðun og fleira. „Við viljum setja það fram þannig að þetta er val en að sjálfsögðu erum við ekki að slaka á kröfum varðandi snyrtimennsku, fagmennsku eða öryggi,“ segir Elísabet. Við erum að endurskoða einkennisfatnað hjá félaginu og samræma áherslur á milli kynja bætir hún við.

Icelandair er þátttakandi í Jafnvægisvog FKA en markmið hennar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi 40/60.

Jafnréttismarkmið Icelandair til 2025

Icelandair hefur sett eftirfarandi markmið í jafnréttismálum til ársins 2025:

  • Tryggja jafnt kynjahlutfall á meðal stjórnenda félagsins – hlutfall karla eða kvenna verði ekki undir 40% árið 2025.
  • Fjölga stöðugildum kvenflugmanna um 25% miðað við núverandi stöðu.
  • Fjölga stöðugildum karl flugþjóna um 25% miðað við núverandi stöðu.
  • Fjölga konum í störfum flugvirkja með því að kynna flugvirkjastörf- og nám fyrir stúlkum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK