Þjóðhagslega óhagkvæmt að fækka starfsfólki?

Frá höfuðstöðvum Íslandsbanka.
Frá höfuðstöðvum Íslandsbanka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsbanki greindi frá því í árslok 2018 að ætlunin væri að fækka stöðugildum hjá sér um 80 til 100 á árinu, samkvæmt Friðberti Traustasyni, fram­kvæmda­stjóra Sam­taka starfs­manna fjár­mála­fyr­ir­tækja (SSF). Alls hefur starfsfólki Íslandsbanka fækkað um 90 á árinu en 20 manns var sagt upp hjá bankanum í morgun.

„Þetta er því búið að liggja í loftinu í langan tíma,“ segir Friðbert. Hann bendir á að SSF hafi farið í samvinnu við bankann til að sjá til þess að hægt yrði að fækka starfsfólki án þess að það kæmi til of margra uppsagna.

Friðbert bendir á að einhverjir hafi hætt sjálfir og ekki hafi verið ráðið í staðinn. Auk þess hafi hann heyrt af starfsfólki sem fór á eftirlaun og lausráðnu fólki sem var ekki fastráðið. 

„Helmingur þessara 90 er vegna vegna starfslokasamninga og starfsmannaveltu en hinn helmingurinn eru beinar eða óbeinar uppsagnir,“ segir Friðbert.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri SSF.
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri SSF. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Hann segir að starfsfólk í fjármálageiranum hafi ansi lengi búið við hagræðingu og að starfsfólki í viðskiptabönkunum hafi fækkað um 40% frá hruni. „Það er búið að loka um helmingi af útibúum og afgreiðslum banka úti um allt land. Með því að leggja alltaf aukna peninga í sjálfvirknivæðingu kerfisins leiðir það til fækkunar starfsmanna.“

Friðbert segir að það þurfi aðeins að skoða hvort það sé endilega þjóðhagslega hagkvæmt að fækka starfsfólki jafn mikið og raun ber vitni. „Það getur ekki verið hagkvæmt að við endum með stóran hóp starfsfólks, sem er sérhæft á hinum ýmsu sviðum, á atvinnuleysisskrá þaðan sem fólk fær borgað úr sjóðum samfélagsins. Þetta þarf aðeins að skoða,“ segir Friðbert og heldur áfram:

„Ég held að þessi ofuráhersla á tæknimálin sé ekki alveg rétt. Það getur vel verið að þetta verði eftir einhverja áratugi en það er stór hópur af fólki sem vill fá persónulega þjónustu og verður að fá hana.“

Friðbert segist halda að fjöldauppsagnir í fjármálageiranum séu ekki liðin tíð. Hann bendir á að 500 manns hafi misst vinnuna hjá bönkunum á árunum 2015 til 2019. 

„Við teljum að þetta sé komið á þann stað að þá verði menn að skoða hvort þeir ætli að skerða þjónustu almennt, aðra en það sem þú gerir í gegnum tölvuna. Ég held að það sé ekki tímabært og það þurfi frekar að efla fjármálaráðgjöf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK