Eimskip hagnaðist um tæplega milljarð

Hagnaður Eimskips var 985 milljónir á þriðja ársfjórðungi.
Hagnaður Eimskips var 985 milljónir á þriðja ársfjórðungi. Ljósmynd/Eimskip

Eimskip hagnaðist um 7,05 milljónir evra á þriðja fjórðungi ársins, en það nemur um 985 milljónum íslenskra króna. Er það 12,5% meiri afgangur en á sama tíma í fyrra. Þá er hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins 7,19 milljónir evra, en það er 22,7% lakari afkoma en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri sem birt var í gær.

Tekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi námu 172,5 milljónum evra og lækkuðu um 9,6 milljónir evra, eða 5,3% frá sama tíma í fyrra. Minnkaði magn í áætlunarsiglingum um 5,1% vegna minni innflutnings til Íslands og minni útflutnings frá Íslandi og Færeyjum í júlí og ágúst. Hins vegar jókst flutningur vestur yfir haf.

Launakostnaður fyrirtækisins hefur lækkað um 5,3% frá því á þriðja ársfjórðungi í fyrra og annar rekstrarkostnaður um 6%.

Handbært fé félagsins við lok tímabilsins nam 26,7 milljónum og jókst úr 20,7 milljónum á sama tíma í fyrra. Eigið fé nam 237,1 milljón evra og var 45,1%, en hafði verið 49,1% við árslok 2018.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra félagsins, að hann sé ánægður með afkomuna.  „Ég er heilt yfir sáttur við afkomu Eimskips á þriðja ársfjórðungi og fyrstu níu mánuðum ársins sem eru í samræmi við væntingar, þrátt fyrir minni innflutning til Íslands. Ég er ánægður að sjá EBITDA og hagnað af flutningsmiðlunarstarfseminni aukast milli ára þrátt fyrir að magn hafi dregist saman vegna aflagðrar starfsemi og spennu í alþjóðaviðskiptum.“

Félagið á að fá afhent tvö ný skip á næsta ári. Annars vegar Brúarfoss, en afhendingu þess var í september frestað um hálft ár vegna bilunar sem kom upp í prufusiglingu. Gerir Eimskip nú ráð fyrir að skipið verði ekki afhent fyrr en á þriðja ársfjórðungi 2020. Þá gerir félagið ráð fyrir því að hitt skipið, Dettifoss, verði afhent á fyrsta ársfjórðungi. Félagið á í samningaviðræðum við skipasmíðastöðina í Kína varðandi næstu skref og tafabætur vegna seinkunar á afhendingu.

Nýju skipin munu fá nöfnin Brúarfoss og Dettifoss.
Nýju skipin munu fá nöfnin Brúarfoss og Dettifoss.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK