FKA óskar eftir tilnefningum

Lilja Bjarnadóttir, lögfræðingur og eigandi og stofnandi Sáttaleiðarinnar og stjórnarkona …
Lilja Bjarnadóttir, lögfræðingur og eigandi og stofnandi Sáttaleiðarinnar og stjórnarkona FKA, og Hulda Ragnheiður Árnadóttir sem er formaður FKA og framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga Íslands.

Frestur til þess að tilnefna konur til verðlauna á viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) rennur út á morgun, þriðjudag. Viðurkenningarhátíð FKA er haldin árlega þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. Hátíðin sjálf fer fram 23. janúar á nýju ári en verðlaunin voru fyrst veitt árið 1999. Forsvarskonur FKA kalla eftir tilnefningum frá atvinnulífinu.

FKA-viðurkenningin er veitt í þremur flokkum. Um er að ræða FKA-viðurkenninguna sem veitt er fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd, FKA-þakkarviðurkenninguna sem veitt er konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu og FKA-hvatningarviðurkenninguna sem veitt er konu fyrir að sýna athyglisvert frumkvæði.

„Að vanda verða veittar viðurkenningar á hátíðinni til þriggja kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri og bendir á að hægt sé að fara inn á heimasíðu FKA og tilnefna konur þar. 

„Þú getur tilnefnt konur í öllum flokkum eða bara eina en mikilvægt er að lesa kríteríu fyrir hverja viðurkenningu og tilnefna í réttum flokki,“ segir Andrea.

Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA.
Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA.

Viðburðurinn er að sögn Andreu jafnan vel sóttur en í fyrra hlutu Sigríður Snævarr sendiherra, Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri PFAFF, og Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, viðurkenningar.

„Öll kyn úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs fylltu Gamla bíó fyrr á árinu þegar FKA heiðraði Sigríði Snævarr sendiherra sem fékk FKA-þakkarviðurkenninguna árið 2019. Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, hlaut FKA-viðurkenninguna og Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, hlaut FKA-hvatningarviðurkenninguna árið 2019,“ segir Andrea.

Helga Valfells hlaut Hvatningarviðurkenningu FKA árið 2019.
Helga Valfells hlaut Hvatningarviðurkenningu FKA árið 2019.

Sjö skipa dómnefnd

Dómnefnd skipuð sjö aðilum úr viðskiptalífinu fer yfir allar tilnefningar. Að sögn Andrea var leitast til við að einstaklingar hefðu sem breiðastan bakgrunn í aldri, reynslu og búsetu við skipun dómnefndar. Er það í samræmi við stefnu FKA fyrir stjórnarmenn og stjórnendur framtíðarinnar.

Formaður dómnefndar 2020 er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sem var formaður FKA árið 2012 til 2016 en hún er í dag formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra í Reykjavík. Áslaug Gunnlaugsdóttir er fulltrúi stjórnar FKA vegna viðurkenningarhátíðarinnar.

Dómnefnd 2020 ásamt Þórdísi Lóu:

Páll Matthíasson — Forstjóri Landspítalans
Margét Tryggvadóttir — forstjóri NOVA
Kristinn Óli Haraldsson (Króli) — tónlistarmaður, leikari, áhrifavaldur og ræðukeppandi
Katrín Olga Jóhannesdóttir — formaður Viðskiptaráðs Íslands
Hilmar Veigar Pétursson — framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP
Guðbjörg Matthíasdóttir — útgerðar- og athafnakona í Vestmannaeyjum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK