Anna ekki eftirspurn

Heyrnatól Apple seljast vel.
Heyrnatól Apple seljast vel. AFP

Svo gæti farið að ný þráðlaus heyrnatól tæknirisans Apple, AirPods Pro, seljist upp þegar líða tekur á mánuðinn. Þetta segir Dan Ives, greinandi hjá Wedbush, sem telur að fyrirtækið muni eiga erfitt með að anna eftirspurn nú þegar jólin nálgast.

Í árshlutauppgjöri Apple fyrir þriðja ársfjórðung kom fram að söluaukning í flokki heyrnatóla hefði verið 54% miðað við sama tíma í fyrra. Að sögn Ives er nær ógerningur fyrir Apple að anna eftirspurninni enda má gera ráð fyrir að eftirspurnin aukist enn frekar næstu vikur þar sem fjöldi stórra söludaga er handan við hornið, þar á meðal „svartur föstudagur“.

Frá því var greint nú á miðvikudag að þeir sem hyggjast kaupa heyrnatól af vefsíðu Apple fái þau ekki afhent fyrr en eftir jól. Þá kom jafnframt fram að fyrirtækið hefði óskað eftir því við framleiðendur að tvöfalda fjölda framleiddra heyrnatóla í hverjum mánuði.

Spá gríðarlegri sölu vestanhafs

Gert er ráð fyrir gríðarlega mikilli netsölu í kringum helgina í Bandaríkjunum ef marka má fréttamiðla vestanhafs. Gera má ráð fyrir að sala á Þakkargjörðardeginum, sem haldinn var hátíðlegur í gær, verði í fyrsta skipti ríflega fjórir milljarðar bandaríkjadala. Talið er að það gefi góð fyrirheit fyrir daginn í dag.

Að því er haft er eftir sérfræðingum vestanhafs er búist við góðri sölu nú í kringum helgina, þá sérstaklega á „svörtum föstudegi“. Rekja má það til góðrar efnhagsstöðu fjölda heimila þar í landi, en samkvæmt nýbirtum tölum hefur atvinnuleysi ekki mælst lægra í um 50 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK