Spá fækkun starfa næsta hálfa árið

Stjórnendur byggingarfyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfa á komandi …
Stjórnendur byggingarfyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfa á komandi hálfu ári. mbl.is/Eggert

Lítill skortur er á starfsfólki á almennum vinnumarkaði og útlit er fyrir áframhaldandi fækkun starfa á næstu sex mánuðum, eða um allt að 600 störf. Þá gera stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins ráð fyrir svipuðum aðstæðum í efnahagslífinu eftir hálft ár. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Gallup sem unnin er fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann og er gerð ársfjórðungslega meðal forstjóra rúmlega 400 stærstu fyrirtækja landsins.

Samkvæmt könnuninni telja einungis 13% stjórnenda að þeir finni fyrir skorti á starfsfólki, en það er svipuð tala og fyrir ári. Skortur á starfsfólki er mestur í sérhæfðri þjónustu. Hins vegar telja 87% að nægt framboð sé af starfsfólki og sjá stjórnendur í byggingarfyrirtækjum fram á mesta fækkun starfsmanna, en verslun kemur þar næst á eftir. Fækkun starfa virðist fram undan í flestum atvinnugreinum nema ýmissi sérhæfðri þjónustu.

24 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni, en 14% fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna en 24% við fækkun á næstu sex mánuðum. Samkvæmt túlkun Samtaka atvinnulífsins má því ætla að starfsmönnum fyrirtækjanna í heild fækki um 0,5% á næstu sex mánuðum sem er sama niðurstaða og fyrir þremur mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um rúmlega 600 á næstu sex mánuðum. Fjölgunin er tæplega 1.100 hjá þeim sem áforma fjölgun en fækkunin rúmlega 1.700 hjá þeim sem áforma fækkun.

Í könnuninni er einnig skoðuð svokölluð vísitala efnahagslífsins, en hún endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður í efnahagslífinu góðar eða slæmar. Nú telja 30% stjórnenda að aðstæður teljist góðar, en 15% telja þær slæmar. Matið er lakast í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Aðstæður í efnahagslífinu verða að mati forstjóranna svipaðar eftir sex mánuði, en 28% stjórnenda telja að aðstæður batni en 27% að þær versni.

Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvert skipti, en hin skiptin er hún ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var hún gerð á tímabilinu 8. nóvember til 2. desember 2019 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 422 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 211, þannig að svarhlutfall var 50%.

Lesa má nánar um niðurstöður könnunarinnar á vef SA.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK